Þrjár ástæður fyrir mjúkri lendingu í stað gengisfalls og verðbólgu

Dr. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.

Fimmtíu punkta stýrivaxtalækkun Seðlabankans í gær eru jákvæð tíðindi — enda munar miklu fyrir fyrirtæki að fjármagnskostnaður lækki nú þegar rekstrartekjur séu almennt að dragast saman, segir dr. Ásgeir Jónsson forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands.

Hann segir í færslu á fésbókinni að vaxtalækkunin nú hafi þó stærri þýðingu:

„Frá seinna stríði hafa allar hagsveiflur hérlendis endað með gengisfalli og verðbólgu en við erum að ná því nú að lenda hagkerfinu með öðrum hætti. Við getum notað peningastefnuna til þess að mýkja lendingu efnahagslífsins í stað þess að þurfa að hækka vexti í mót samdrætti til þess að styðja við fallandi gengi krónunnar — líkt og gerðist árið 2001 og 2008.“

Ásgeir segir að þrír þættir skipti þar mestu máli.

„Í fyrsta lagi er enn viðskiptaafgangur til staðar, enda hefur alls ekkert hrun átt sér stað í ferðaþjónustu, heldur hefur greinin aðeins verið að hægja á sér. Sú þróun var raunar hafin áður en WOW air féll. Viðskiptaafgangurinn myndar mikilvægan stuðning við krónuna.

Með þessu er brotið blað í íslenskri hagsögu.

Í öðru lagi hefur sparnaður almennt verið meiri á síðustu árum og einkaneysla minni — heldur en áður hefur þekkst — sem aftur leiðir til minni innflutnings og hærra jafnvægisgengis krónunnar. Við höfum — þrátt fyrir allt — ekki misst hagkerfið út í þenslu og ofhitnun þrátt fyrir mikið vaxtarskeið, sem hefur komið fram með verðbólgu. Það er mjög jákvætt og veldur því að ekki er þörf á gengisleiðréttingu eftir þetta vaxtarskeið. Með þessu er brotið blað í íslenskri hagsögu.

Í þriðja lagi búum við yfir öflugum gjaldeyrisforða. Seðlabankinn getur þannig leyft sér að minnka vaxtamun við útlönd með því að lækka vexti án þess að eiga á hættu að gengið gefi eftir. Það gátum við til dæmis ekki árin 2008 og 2001.“

Að mati Ásgeirs Jónssonar þýðir allt þetta að við séum farin að geta beitt peningastefnunni meira í líkingu við önnur lönd til þess að milda niðursveifluna og tryggt þannig stöðugleika.