Lögð hefur verið fram tillaga að matsáætlun virkjun vindorku með vindmyllum. Fyrr í vetur var greint frá því á Bæjarins besta að þessi áform væru uppi og hefur formleg tilllaga að matsáætlun verið lögð fram.
EM Orka áformar að reisa allt að 130 MW vindorkugarð í landi Garpsdals við Gilsfjörð í Reykhólahreppi. EM Orka er íslenskt fyrirtæki í eigu EMP Holdings, sem er sameiginlega í eigu EMP IN og Vestas, en Vestas er einn stærsti vindmylluframleiðandi heims með 94 GW framleiðslugetu í 79 löndum. EMP var stofnað árið 2015 með það að markmiði að stuðla að og þjóna alþjóðlegum markmiðum um aukna áherslu á endurnýjanlega orku, þá aðallega á sviði vind- og sólarorku.EMP, með höfuðstöðvar í Dublin.
Í skýrslunni kemur fram að Garpsdalur er talinn vera svæði sem er vel til þess fallið að bera allt að 130 MW vindorkugarð. Er þar einkum horft til hagstæðra vindskilyrða, nálægð í tengivirki, góðs aðgengis og fjarlægð frá byggð. Þá segir:
„Yfirborðið er mestmegnis melur með frostlyftu efni. Vegna mikillar hæðar yfir sjó er engin búseta innan svæðisins og lítið um dýralíf. Fyrirfram er talið ólíklegt að farflug sé algengt yfir svæðið. Svæðið er innan 2730 ha lands í einkaeigu og af því er fyrirhugað að nýta um 320 ha undir vindmyllur. Forathugun gefur til kynna að svæðið gæti afkastað allt að 130 MW orkuvinnslu, miðað við allt að 35 vindmyllur og hver þeirra allt að 150 m á hæð. Val á staðsetningu tók mið af vindathugun. Ýtarlegri vindmælingar hófust haustið 2018 og munu standa yfir í 2 ár.“
Framkvæmdin er háð lögum um mat á umhverfisáhrifum og er tillagan að matsáætlun er fyrsta skrefið í matsferlinu. Gert er ráð fyrir að matsskýrsla verði lögð fram í apríl 2020.
Tenging við raforkuflutningskerfið
Allar vindmyllurnar verða tengdar saman með 33 kV jarðstrengjum sem verða plægðir niður og staðsettir eins og kostur er í vegstæði til þess að lágmarka rask . Safnstöð verður staðsett innan vindorkugarðsins þar sem spennan verður hækkuð í 132 kV. Frá safnstöðinni verður vindorkugarðurinn tengdur í spennistöð Landsnets í Geiradal, sem er í um 6 km fjarlægð.