Þrjú börn dansks tískukóngs látin eftir árásirnar í Sri Lanka

Holch Povlsen er sagður ríkasti maður Danmerkur.

Danski milljarðamæringurinn Anders Holch Povlsen og kona hans Anne, misstu þrjú af fjórum börnum sínum í hryðjuverkaárásunum á Sri Lanka á páskadag.

Frá þessu skýra danskir fjölmiðlar í dag, til dæmis Jótlandspósturinn.

Holch Povlsen er sagður ríkasti maður Danmerkur, en hann er næststærsti landeigandi í Skotlandi, stærsti hluthafi ASOS netsölurisans, auk þess að vera eigandi fatakeðjunnar Bestseller, sem er með merkin Vero Moda, Jack & Jones, Vila o.fl.

Talsmaður Bestseller fyrirtækisins hefur staðfest hina hörmulegu fregn.

Enn er ekki vitað hvar fjölskyldan, sem var í fríi á Sri Lanka um páskana, var þegar árásirnar áttu sér stað, en breskt vitni greindi frá því á facebook í gær, að hann vissi um danska fjölskyldu sem hafði misst þrjú börn á Shangri La hótelinu þar sem hann bjó. 

Um 290 manns eru nú látnir og um 500 slasaðir eftir árásirnar, sem voru gerðar á hótel og kirkjur á nokkrum stöðum í landinu þegar páskamessa fór fram. Róttækur hryðjuverkahópur Islamísta er talinn ábyrgur fyrir ódæðunum, en 24 hafa verið handteknir. Talið er að 35 erlendir ríkisborgarar séu á meðal hinna látnu, að sögn breska ríkisútvarpsins.