Dönskum þingmanni hefur verið skipað að fjarlægja ungbarn sitt úr þingsal, en það vakti undrun í landinu sem þykir frumkvöðull í kvenréttindum.
„Þú ert ekki velkominn með barnið þitt í þinghúsið,“ sagði Pia Kjærsgaard, fyrrum leiðtogi Danska þjóðarflokksins, við Mette Abildgaard.
„Ég óskaði ekki eftir leyfi til að koma með hana þar sem ég hafði áður séð kollega koma með barn inn í salinn án vandræða,“ segir íhaldskonan Abildgaard á Facebook, en flokkurinn hennar er í mið-hægri ríkisstjórn Danmerkur.
Abildgaard, sem er á fertugsaldri, sagði að hún hafi lent í óvenjulegum aðstæðum með fimm mánaða dóttur sína og hafi aldrei fyrr komið með hana í þingsalinn. Hún sagði að ungbarnið hafi verið „rólegt og með snuð.“
Kjærsgaard, sem er þingforseti eins og frægt er eftir Íslandsheimsókn hennar, sendi skilaboðin til aðstoðarmanns, sem óskaði eftir að Abildgaard fjarlægði barnið úr salnum. Abildgaard fól barn sitt skamma stund í hendur aðstoðarmanni og kom aftur inn í þingsal til að greiða atkvæði.
„Þingmenn eiga að vera í salnum, ekki börn eða ungabörn,“ sagði Kjærsgaard þegar fjölmiðlar spurðu hana út í málið. Hún sagði að skýrar reglur yrðu gefnar út í framhaldinu.
Ætti að vera opið mæðrum, feðrum og börnum
Danmörku er oft haldið á lofti sem brautryðjanda í jafnrétti kynjanna og réttindum kvenna, og sem barna- og fjölskylduþjóð með langt foreldraorlof.
Abildgaard benti á að hún hafi átt rétt á fæðingarorlofi á ári á fullum launum en að hún hefði kosið að fara aftur í vinnuna.
Facebook-færslan hennar fékk yfir 600 athugasemdir á nokkrum klukkustundum. „Þing sem er fulltrúi mæðra, feðra og barna ætti að vera opið mæðrum, feðrum og börnum,“ sagði í einni athugasemdinni.
Árið 2016 komst Unnur Brá Konráðsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, í fyrirsagnir blaðanna eftir að hafa gefið barni brjóst á meðan hún talaði í ræðustól Alþingis.
Í september sl., varð forsætisráðherra Nýja-Sjálands, Jacinda Ardern, tákn vinnandi mæðra þegar hún kom með barnið sitt á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York.