Þungskýjað í íslenskri ferðaþjónustu

Ljósmynd: SAF.

„Ljóst er af tíðindum dagsins að þungskýjað er í íslenskri ferðaþjónustu með brotthvarfi WOW air af markaði. Til skamms tíma verða áhrifin nokkur, enda tapast störf ásamt öðrum neikvæðum áhrifum á rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu og tengdum greinum.“

Þetta segir í yfirlýsingu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.

„Þá eru erfiðleikar á vinnumarkaði þar sem verkföll hafa sett strik í reikninginn hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Staðan er því langt frá því að vera góð, en íslensk ferðaþjónusta hefur áður glímt við erfiðleika og náð sér á strik á nýjan leik,“ segir þar ennfremur.

Formaður og framkvæmdastjóri SAF hafa í dag átt fundi með stjórnvöldum og helstu hagaðilum vegna stöðunnar og fylgjast grannt með gangi mála. Auk þess hafa fjölmiðlar verið í miklu sambandi við skrifstofu SAF og hefur forysta samtakanna sinnt þeim af kostgæfni. Þá kom stjórn samtakanna saman til fundar í dag til að ræða þá stöðu sem upp er komin.

„Nú þegar háönn ferðaþjónustunnar er handan við hornið er mikilvægt að róa öllum árum að því að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur. Þar verða stjórnvöld að koma til kastanna með auknu fjármagni til markaðssetningar á Íslandi sem góðum áfangastað. Þá er mikilvægt að fyrirtæki í ferðaþjónustu um allt land haldi áfram því góða starfi sem unnið hefur verið undanfarin ár.

SAF hvetja fyrirtæki í ferðaþjónustu til að liðsinna farþegum eftir bestu getu og í samræmi við skilmála hvers og eins fyrirtækis, en jafnframt að sýna viðskiptavinum svigrúm og sveigjanleika við breytingar á ferðatilhögun.

Þrátt fyrir að staðan sé erfið þessi misserin eru langtímahorfur í íslenskri ferðaþjónustu mjög góðar. Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein í heiminum sem er í hvað örustum vexti og engin ástæða til að ætla annað en að íslensk ferðaþjónusta verði framarlega á þeim vettvangi,“ segja Samtök ferðaþjónustunnar ennfremur í yfirlýsingunni.