Þurfum ekki að lengja líf hins íslenska Saville í fjölmiðlum frekar

Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna, segist bera mikla virðingu fyrir þeim konum sem nú finna styrk í lokuðum hóp til að stíga það skref að greina frá brotum sem þær hafa orðið fyrir af hálfu Jóns Baldvins Hannibalssonar, fv. utanríkisráðherra.

Vala, sem er systurdóttir eiginkonu Jóns Baldvins, kveðst í færslu á fésbókinni alltaf hafa trúað þeim Aldísi, dóttur Jóns Baldvins, og Guðrúnu Harðardóttur, sem steig fram í viðtali árið 2012 og lýsti tilraunum Jóns Baldvins til að kyssa sig á Ítalíu þegar hún var táningur og næturheimsóknum hans í herbergi hennar. 

Eins og móðir mín segir, þá höfum við ekkert haft af þeim Bryndísi og Jóni að segja frá því að Guðrún sagði okkur fyrst frá máli sínu. Saga Aldísar er þyngri en tárum taki,“ segir Vala.

Vala Pálsdóttir.

Hún endar færslu sína á áskorun til fjölmiðla.

Er ekki kominn tími til að binda enda á því að spyrja Jón álits á þjóðfélagsmálum? Ég vona að allir geti myndað sér sjálfstæða skoðun þó ekki væri nema á því að lesa bréfin sem hann skrifaði barnungri stúlku sem tengist honum fjölskylduböndum.

Mér stendur slétt sama um hvað þessi fyrrverandi stjórnmálamaður hefur að segja eða breytir um skoðun til þess eins að koma sér að í fjölmiðlum. Við þurfum ekkert að lengja líf hins íslenska Saville í fjölmiðlum frekar!“ segir Vala og vísar þar til mála eins þekktasta sjónvarpsmanns Breta á liðinni öld, Jimmy Saville, sem lést árið 2011 og var minnst með miklum virktum, en aðeins um ári síðar höfðu fjölmiðlar flett ofan af kynferðisbrotum gagnvart gríðarlegum fjölda drengja og stúlkna um áratugaskeið.

Þótti Saville hafa misnotað stöðu sína og traust sem þjóðþekktur sjónvarpsmaður breska ríkissjónvarpsins og var stofnunin harðlega gagnrýnd fyrir að hafa ekkert gert með margvíslegar kvartanir um framkomu hans gegnum árin sem virtust markvisst hafa verið þaggaðar niður.