„Maður hefur þessa óþægilegu tilfinningu, að það sé sjálfstætt markmið að fara í átök,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun, og kvaðst „hálf-sleginn“.
„Menn koma ábúðarfullir út [af fundum með ríkissáttasemjara] og segja að mikið beri í milli, og allir fylgjast með. Síðan slitnar upp úr, þá koma menn út og eru gjörsamlega ósammála um það sem verið var að tala um!“
Bjarna finnst að sögn, það vera lágmarkskrafa eftir margra vikna vinnu, að þeir sem gæti mikilla hagsmuna fyrir hönd fjölda fólks, viti um hvað er deilt. „Hvort er verið að gera kröfur um 60-85% launahækkanir eða eitthvað allt annað? Til hvers er ríkissáttasemjari ef ekki er hægt að draga það fram eftir margra vikna fundi hjá embættinu?“
Sagði hann „með ólíkindum“ að þeir sem hafi svo mikilla hagsmuna að gæta séu enn að rífast um grundvallaratriði. Enn sé ekki verið að ræða um hvort sé hægt að mæta kröfunum, heldur það hverjar kröfurnar eru.
„Fáránlegt“ sé að biðja um aðkomu stjórnvalda þegar viðræður séu svo skammt komnar, ekki séu komin fram kostnaðarmöt og kröfurnar keyrðar fram á „einhverri tilfinningu.“ Hann krefst vinnu við skilgreiningu á því hvað kröfurnar þýða, beggja megin borðsins, hjá launþegum og launagreiðendum.
„En við erum ekki komin þangað ennþá, eftir allt það sem á undan er gengið. Það er alveg með ólíkindum og það er mesta áhyggjuefni mitt, ekki viðtökurnar við skattatillögum ríkisstjórnarinnar,“ sem Bjarni segist stoltur af, þar eð sumir aðrir vilji hækka skatta.
Furðar sig á væntingum
„Það er afar undarlegt að hlusta á umræðu um skattatillögur ríkisstjórnarinnar,“ sagði Bjarni og vísaði þar til gesta þáttarins sem voru þar á undan honum.
„Við sögðum í stjórnarsáttmálanum að við ætluðum að lækka neðra skattþrepið um 1%, við settum 14 milljarða í fjármálaáætlun, sem eru u.þ.b. 1% lækkun á neðra þrepinu, og komum með tillögu sem útfærir þessa 14 milljarða og hámárksáhrif til lækkunar á sköttum koma fram á lægstu launatöxtunum. Þá koma menn fram og segja, „Þetta er allt annað en væntingar stóðu til um“,“ segir Bjarni sem furðar sig á því, þar sem að ríkisstjórnin hafi verið skýr um sína fyrirætlun allan tímann.
„Ég tel að það sé eitthvað allt, allt annað sem hér býr að baki,“ sagði Bjarni, fullyrðir að ríkisstjórnin ætli að lækka skatta. Ótrúlegt sé að hlusta á fólk gagnrýna að um 80 þúsund króna kjarabætur gangi til fólks í öllum launastigum upp að hátekjuþrepinu, og nefnir að á því bili sé að finna t.d. kennara, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður og iðnaðarmenn.
Spurður að því hvort að það geti ekki verið vegna þess að kröfurnar lúti að hækkun lægstu launanna. „[Tillaga ríkisstjórnarinnar] lækkar skattbyrðina mest hjá þeim sem eru neðst, alveg eins og t.d. hrein hækkun persónuafsláttar hefði gert, og hlutfallslega kemur þetta þeim sem eru að vinna á lægstu laununum best, það er staðan,“ sagði Bjarni sem taldi að líka þyrfti að huga að þeim sem eru með millitekjurnar.
Fjármálaráðherra sagði að í upphafi kjörtímabilsins hafi verið ákveðið, í ljósi undangengins launaskriðs, létta undir með atvinnurekendum með því að lækka tryggingagjaldið sem nú hafi verið gert, en það þyrfti líka að lækka skattbyrði á venjulegu vinnandi fólki til að liðka til við gerð kjarasamninga, alveg eins og á þá sem eru með lægstu launin, sem fái mest. Það hafi legið ljóst fyrir allan tímann.
Sveitarfélög bera ábyrgð á stöðunni á húsnæðismarkaðnum
Bjarni benti á ýmsan stuðning til viðbótar í gegnum kerfin, sérstaklega handa barnafólki og sagði að í upphafi viðræðna hafi einnig verið rætt um húsnæðismálin, en það sé ekki í höndum ríkisstjórnarinnar einnar og sér að reyna að laga stöðuna á húsnæðismarkaðnum.
„Þar bera sveitarfélögin gríðarlega mikla ábyrgð, og sú þróun sem hefur orðið í skipulagsmálum og áherslum sveitarstjórna á höfuborgarsvæðinu hefur haft mjög mikil áhrif.“
Hann talaði um „algeran markaðsbrest“ í framboði smærri, ódýrari íbúða. Sökinni á því verði ekki velt yfir á ríkisstjórnina, sem sé með tillögur í þeim efnum, sem og skattalækkanir og lækkun á tryggingagjaldinu.
Forsenda vaxtalækkana sé stöðugleiki og að allir aðilar verði saman að axla ábyrgð á því að það geti gerst. Ríkið hafi unnið að því jafnt og þétt t.d. með sveitarfélögunum, en aðrir verði einnig að huga að þessu til að það geti gerst. Mögulegt sé að bæta kjör án þess að rugga bátnum of mikið. Vextir hafi lækkað, verðlag hafi verið stöðugt og mikið framboð á óverðtryggðum lánum miðað við áður. Ekki sé hægt að miða við vexti í öðrum löndum sem hafi verið lágir þar, m.a. vegna mikils atvinnuleysis og lítils hagvaxtar, en hér hafi ekki verið um það að ræða. Tekist hafi að dreifa ávinningi af löngu hagvaxtarskeiði á Íslandi með sanngjörnum hætti.