Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur á samráðsgátt stjórnvalda óskað eftir umsögnum um drög að breytingu á reglugerð um hollustuhætti.
Fyrirhugaðar breytingar kveða á um að heilbrigðisnefnd geti heimilað að gæludýr séu leyfð í almenningsvögnum í þéttbýli að uppfylltum tilteknum skilyrðum, m.a. á hvaða tíma dags heimilt sé að ferðast með gæludýr í vögnunum, hvar gæludýr mega vera í vögnunum og hvernig umbúnaður dýra skuli háttað.
Gert er ráð fyrir að heimildin verði bundin við hunda og ketti sem skráðir eru í samræmi við samþykktir um hunda- og kattahald í hlutaðeigandi sveitarfélögum, sem og nagdýr, fugla, kanínur, froska, skrautfiska, skriðdýr og skordýr, enda sé heimilt að halda umrædd dýr á Íslandi. Séu gæludýr heimiluð skal hengja upp upplýsingar þess efnis á áberandi stað á vagninum sjálfum, innan sem utan, og auglýsa rækilega þær reglur og skilyrði sem farþegar og gæludýr þurfa að uppfylla.
Strætisvagnar Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu hafa frá 1. mars 2018 haft undanþágu frá reglum um að dýr megi ekki flytja í almennum farþegarýmum samgöngutækja. Undanþágan var veitt vegna verkefnis Strætós bs. um eflingu almenningssamgangna. Á grundvelli jákvæðrar reynslu af verkefninu er nú áformað að heimila í reglugerð flutning á gæludýrum að uppfylltum ofangreindum skilyrðum.
Umsögnum um reglugerðadrögin skal skilað í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 13. september næstkomandi.