Tilkynnt um viðamestu almannavarnaaðgerðir á friðartímum í Noregi

Norðmenn tilkynntu nú rétt áðan um viðamestu aðgerðir sínar til almannavarna vegna Kórónaveirunnar sem sést hafa á friðartímum, eða frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Skólum á öllum skólastigum verður lokað, hárgreiðslustofur, nuddstofur og snyrtistofum lokað, svo dæmi séu tekin. Mannamót yfir tilteknum fjölda eru bönnuð og heimsóknir á sjúkrahús og hjúkrunarheimili líka.

Þórir Jökull Þorsteinsson, prestur í Noregi, segir að þetta séu gífurlega viðamiklar aðgerðir sem sýni alvöru málsins.

„Norsk yfirvöld hafa nú kynnt alvarlegustu inngrip sem þau hafa gripið til á friðartímum. Miklu fleiri smit hafa greinst í landinu en við var búist, m.a. einhver sem ekki verða rakin til útlanda. Allir skólar og leikskólar loka kl. 18 í dag. Íþrótta- og menningarviðburðum verður aflýst og öllu ónauðsynlegu samkomuhaldi. Meðal þess sem loka ber eru íþróttahallir, likamsræktarstaðir, nuddstofur, hársnyrti- og rakarastofur, sundstaðir, veitingastaðir, krár og skemmtistaðir.

Sr. Þórir Jökull Þorsteinsson.

Allir sem unnið geta heima hjá sér geri það. Ömmur og afar verði ekki höfð til barnagæzlu. Mikill viðbúnaður er í heilbrigðiskerfinu og barnafólki í heilsugeiranum skal tryggð barnagæsla. Því fólki sem annast sjúklinga á sjúkrahúsum er bannað að fara til útlanda,“ segir hann í færslu á fésbókinni.

„Allir sem hafa verið á ferðalögum utan Norðurlanda síðustu tvær vikurnar skulu nú í sóttkví. Lagt er að almenningi að slá utanlandsferðum á frest. Smitaðir eru nú á 7. hundrað í Noregi, um 10 eru á sjúkrahúsi, einn þeirra kann að vera í lífshættu. Enginn veit hvað næstu dagar bera með sér en yfirvöld vinna út frá módeli sem gerir ráð fyrir því að 2,2 milljónir manna muni veikjast og allt að 30 þúsund verði lögð á sjúkrahús.

Yfirvöldin brýna Norðmenn sem eru erlendis og vilja heim að koma sér heim sem fyrst – því flugsamgöngur í Evrópu og heiminum öllum séu í mikilli óvissu,“ bætir hann við.