Tillaga um nýjan oddvita felld á félagsfundi Miðflokksins

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins.

Tillaga uppstillingarnefndar Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður um framboðslista fyrir komandi alþingiskosningar var felld á félagsfundi í kvöld. Í tillögunni fólst að Fjóla Hrund Björnsdóttir, framkvæmdastjóri þingflokks Miðflokksins, yrði oddviti í stað Þorsteins Sæmundssonar alþingismanns.

Afar fátítt er að tillögur uppstillinganefnda stjórnmálaflokkanna hljóti ekki brautargengi á félagsfundum. Oftast eru þær einróma samþykktar með lófaklappi. En stuðningsmenn Þorsteins voru ósáttir við hlutskipti hans og felldu listann í heild sinni með 30 atkvæðum gegn fjórtán.

Þorsteinn sækist enn eftir oddvitasætinu, en þar sem tillögu uppstillingarnefndar var hafnað er málið allt í biðstöðu og enginn framboðslisti klár. Miðflokksmenn í kjördæminu, sem styðja Þorstein, sögðu við Viljann í kvöld, að uppstillinganefndin njóti vart trausts eftir þetta.