Tillaga VG um þjóðaratkvæði um NATO bæði heimskuleg og hættuleg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var meðal frummælenda á fundi Varðbergs í húsi Vigdísar. / Varðberg.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að þegar horft er til þess að allt okkar alþjóðasamstarf, þ.m.t. aðildin að Nató, hefur fært okkur fram á við í átt að auknu efnahagslegu og lýðræðislegu öryggi sem styrkt hefur fullveldið, sé lítt skiljanlegt að horfa upp á tillögu þingmanna forystuflokksins í ríkisstjórn, Vinstri grænna.

„Tillaga nú um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild okkar að Nató þar sem allur rökstuðningur með henni gengur hreint og beint út á andúð gegn varnarsamstarfinu, er ekki bara heimskuleg heldur jafnvel hættuleg. Vegið er að styrkleika okkar mikilvæga alþjóðasamstarfs og varnarsamvinnu. Ekki nema flutningsmenn telji orð þeirra með öllu merkingarlaus,“ sagði formaður Viðreisnar á hátíðarfundi Varðbergs á fimmtudag, sem haldinn var í tilefni af 70 ára afmæli Atlantshafsbandalagsins, en Ísland var meðal stofnþjóða þess.

„Við skulum hafa það skýrt – ef við stæðum frammi fyrir sömu ákvörðun í dag yrði þjóðin spurð enda útilokað í dag að taka ákvörðun um aðild að slíku alþjóðasamstarfi án aðkomu þjóðarinnar. Reynslan hefur kennt okkur það.

Ákvörðun um aðild að Nató liggur hins vegar fyrir, nú til 70 ára og hefur verið til farsældar fyrir þjóðina í þann tíma, eins og ég hef þegar komið inn á. Við höfum tekist á herðar alþjóðlegar skuldbindingar sem í dag væri beinlínis varasamt út frá þjóðaröryggi að hverfa frá.

Getum ekki tryggt öryggi á Norðurslóðum öðruvísi

Við munum til að mynda ekki geta tryggt öryggi meðal annars á Norðurslóðum án aðkomu Nató og þeirrar sérþekkingar og stuðnings sem við fáum þaðan – reyndar í mjög mörgum málum. Aðildin að Nató er því jafnmikið öryggismál, umhverfismál, lýðræðismál, fullveldismál fyrir þjóðina í dag og hún var á sínum tíma. Áskoranirnar eru bara annars eðlis.

Að leggja fram tillögur er réttur hvers þingmanns. Það er hins vegar ábyrgðarhluti að forystuflokkur í ríkisstjórn, og drjúgur þorri þingmanna hans, treystir sér ekki lengur til að styðja við þjóðaröryggisstefnu Íslands sem m.a. ríkisstjórnarsáttmálinn byggir á. Sáttmála sem þessir sömu þingmenn utan tveggja (þeir eru þó samkvæmir sjálfum sér) höfðu samþykkt.

Í þjóðaröryggisstefnunni segir meðal annars – Að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja. – Þetta er nokkuð skýrt.

Og vel að merkja þá er forsætisráðherra sá ráðherra sem ber meginábyrgðina á því að þjóðaröryggisstefnu Íslands sé fylgt eftir. Að hún sé framkvæmd. Er það trúverðugt eftir þetta nýjasta útspil þingmanna VG?

Áætlanir þeirra ríkja sem nú ganga hvað harðast fram á bak við tjöldin í afskiptum sínum að innanríkismálum annarra landa, miða oftar en ekki við að hola að innan samstöðu þjóða um tiltekin mál, eins og varnar- og öryggismál. Tillaga þingmanna Vinstri grænna fellur vel inn í það leikjaplan allt. Að átta sig ekki á því væri barnsleg einfeldni.

Vanlíðan innan stjórnarsamstarfsins ekki grundvöllur fyrir kollsteypu á utanríkisstefnu Íslands

Ef vanlíðan tiltekinna þingmanna innan stjórnarsamstarfs er svona mikil, vegna þess að hver hugsjónastólpinn á fætur öðrum hefur fallið, þá má finna þeirri vanlíðan og örvinglun útrás með ýmsum hætti. Hún er hins vegar ekki réttmætur grundvöllur til kollsteypu á utanríkisstefnu Íslands.

Þetta mál hlýtur að vera rætt á stjórnarheimilinu og vera tekið upp af þeim flokkum sem réttilega og af einurð studdu farsæla aðild Íslands að Nató. Nú reynir á þá. Við sem erum stuðningsfólk vestrænnar samvinnu og aðildar okkar að varnarsamstarfinu ætlumst til þess að forsætisráðherra segi skýrt hvaða stefnu hún sem þjóðarleiðtogi styðji á sviði öryggis- og varnarmála – og hafi stuðning til. Hér gildir ekkert fum, ekkert fát eða útúrsnúningar til heimabrúks. Heimsbyggðin fylgist með, hvort sem okkur líkar það betur eða verr,“ sagði Þorgerður Katrín ennfremur.