Tillögur sóttvarnalæknis komnar á borð ráðherra: Á von á gagnrýni

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. / Lögreglan.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur sent Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra tillögur sínar um afnám takmarkana sem hafa verið í gildi í samfélaginu undanfarnar vikur vegna Kórónuveirufaraldursins. Núverandi takmarkanir gilda til 4. maí nk. og í tillögunum gerir sóttvarnalæknir grein fyrir því hvernig hann telur að aflétta eigi núgildandi takmörkunum. Í hvaða skrefum og á hve löngum tíma.

Þórólfur upplýsti þetta á upplýsingafundi Almannavarna í dag, en mjög fá staðfest smit hafa greinst hér á landi undanfarna daga og virðist faraldurinn því sannarlega á niðurleið, eins og sakir standa.

Þórólfur sagðist hafa átt víðtækt samráð við margskonar aðila í tillögugerðinni um framhaldið og það sé svo ráðherra að taka endanlega ákvörðun sem væntanlega verði kynnt síðar í vikunni.

Hann segist eiga von á gagnrýni fyrir að farið verði of hægt í að færa samfélagið til fyrra horfs. Að sama skapi muni einhverjir líka vilja ganga lengra í að verjast veirunni. Lykilatriðið að hans mati sé að fara sér hægt og minnka þannig líkurnar á því að smit blossi upp aftur með þeim afleiðingum að herða þurfi reglurnar aftur og byrja eiginlega upp á nýtt. Það væri allra versta staðan að lenda í.