Tímamót í íslenskri menningarsögu: Svíar eignast stærsta bókaforlag landsins

Frá undirritun kaupsamningsins.

Mikil tímamót hafa orðið í íslenskri menningarsögu með því að sænska stórfyrirtækið, Storytel AB, móðurfélag Storytel á Íslandi, hefur keypt 70% hlut í stærstu bókaútgáfu landsins, Forlaginu og staðgreitt kaupverðið, sem er trúnaðarmál milli aðila. Þar með er ljóst að útgáfuréttur margra af helstu perlum íslenskra bókmennta er nú að meirihluta í eigu útlendinga.

Seljandinn, bókmenntafélagið Mál og menning, mun áfram fara með 30% hlut í félaginu sem mun starfa áfram sem sjálfstætt bókaforlag, aðskilið frá streymisveitu Storytel á Íslandi. Forlagið bætist þannig í hóp þriggja annarra norrænna útgáfufélaga í eigu Storytel AB, Norstedts Förlagsgrupp í Svíþjóð, People’s Press í Danmörku og Gummerus Publishers í Finnlandi.

Forlagið er stærsta bókaútgáfa landsins. Félagið var stofnað árið 2007 af Jóhanni Páli Valdimarssyni, Agli Erni Jóhannssyni og bókmenntafélagi Máls og menningar sem hefur farið með ráðandi hlut frá árinu 2017. Forlagið gefur árlega út um 150 titla, marga hverja eftir virtustu höfunda landsins. Félagið hefur allt frá stofnun gegnt mikilvægu hlutverki í bókmenntasamfélaginu og reynst öflugur málsvari íslenskra rithöfunda á erlendum vettvangi.

„Við erum gríðarlega ánægð með þessa nýjustu viðbót við Storytel fjölskylduna og öflugt net útgáfufélaga okkar á norðurlöndunum. Forlagið sómir sér þar vel meðal virtra félaga á borð við Norstedts Förlagsgrupp, Gummerus Publishers og People’s Press. Við erum spennt að hefja samstarf með reynslumiklum útgefendum Forlagsins sem deila ástríðu okkar fyrir góðum sögum“, segir Jonas Tellander, forstjóri og stofnandi Storytel.

„Íslendingar eru mikil bókaþjóð og við erum sannfærð um að þetta muni reynast mikið gæfuspor fyrir íslenskan bókamarkað. Þekking Storytel á stafrænni þróun ásamt öflugri reynslu Forlagsins í bókaútgáfu mun stórauka aðgengi landsmanna að vönduðum bókmenntum og kaupin munu treysta sérstöðu beggja félaga enn frekar,“ bætir hann við í tilkynningu.

Forlagið og Storytel á Íslandi munu starfa sjálfstætt áfram eftir kaupin og stefna Forlagsins verður áfram sú að efla íslenska útgáfu og stuðla að því að raddir íslenskra rithöfunda berist sem víðast.

„Forlagið byggir á aldargamalli hefð útgefenda sem hafa gert það að ævistarfi sínu að koma íslenskum bókmenntum á framfæri. Við erum afskaplega ánægð og hlökkum til samstarfsins með Storytel sem er kraftmikið nýsköpunarfyrirtæki á sviði stafrænnar útgáfu. Samstarfið mun opna margar dyr fyrir höfundum Forlagsins og færa okkur skrefi nær inn í framtíðina og nær nútíma lesendum og hlustendum“, segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.

„Við erum sannfærð um að ávinningurinn verður mikill fyrir íslenska lesendur, hlustendur og höfunda. Þegar litið er til þróunar útgáfu á alþjóðlegum vettvangi blasir við að samstarf við öflugan útgefanda og dreifingaraðila sem byggir á traustum stafrænum grunni mun tryggja fjölskrúðugt bókmenntalíf á Íslandi til framtíðar. Það má því segja að samband Storytel og Forlagsins sé í raun fjárfesting íslenskrar útgáfu í framtíðinni. Kaupin munu tryggja áframhaldandi útgáfu á íslenskum bókmenntaperlum og gera okkur kleift að styðja betur við nýja höfunda. Mál og menning mun í þessu skyni nýta stóran hluta kaupverðsins til stofnfjár sjóðs sem mun hafa það hlutverk að efla íslenskar bókmenntir með stuðningi við rithöfunda og bókaverslun, segir Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Máls og menningar.

Velta Forlagsins var um 8 milljónir evra árið 2019 (1100 milljónir ISK). Samningsaðilar hafa sammælst um að kaupverðið sem verður staðgreitt, verði ekki gefið upp. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Storytel er leiðandi streymisveita og útgefandi raf- og hljóðbóka í norður Evrópu. Storytel býður viðskiptavinum upp á ótakmarkaða hlustun og lestur yfir 500.000 titla á heimsvísu. Framtíðarsýn Storytel er að efla samkennd og gera heiminn að meira skapandi stað með góðum sögum, sem hægt er að njóta hvar og hvenær sem er. Útgáfa félagsins fer fram undir merkjum útgáfufélaga Norstedt, Massolit, StorySide, Printz Publishing, People’s Press, Rabén & Sjögren, B.Wahlström, Gummerus Kustannus og Norstedt Kartor. Dótturfyrirtækið Ztory býður einnig upp á ótakmarkaðan lestur stafrænna tímarita. Fyrirtækið starfar á 20 mörkuðum víðsvegar um heiminn og höfuðstöðvar þess eru staðsettar í Stokkhólmi.

Mál og menning er bókmenntafélag, stofnað árið 1937 og hefur gegnt mikilvægu hlutverki í íslensku bókmenntalífi allt frá upphafi. Félagið hefur gefið út verk margra af virtustu höfundum landsins og er meirihlutaeigandi í Forlaginu, stærsta bókaforlagi landsins.