Tímamót með áformum dómsmálaráðherra um að leyfa áfengisauglýsingar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra vill afnema bann við áfengisauglýsingum og segir það ekki virka. Þá mismuni það íslenskum framleiðendum. Hún sagði í fréttum Ríkisútvarpsins í kvöld, að frumvarp þessa efnis sé í vinnslu í ráðuneytinu.

Þetta eru mikil tímamót, því hingað til hafa stjórnvöld ekki vilja heyra minnst á breytingar í þessa veru, þrátt fyrir ákall fjölmiðla og íslenskra áfengisframleiðenda um ósanngirni þess að allt flæði í auglýsingum erlendra framleiðenda á samskiptamiðlum og í fjölmiðlum á öðrum tungumálum en íslensku.

Áslaug Arna hefur raunar þegar stigið stórt skref í frjálsræðisátt þegar kemur að áfengislögunum með því að kynna fyrirhugað frumvarp sitt um að heimila sölu áfengis í íslenskum netverslunum, eins og Viljinn hefur áður skýrt frá.

Dómsmálaráðherra sagði í samtali við RÚV, að fullt tilefni sé til að endurskoða löggjöfina um áfengisauglýsingar í framhaldinu því að núverandi staða sé óréttlát og hafi í för með sér ójafnræði fyrir innlenda framleiðendur.

„Það er auðvitað þannig í dag að áfengisauglýsingar eru alls staðar hvort sem það er þegar við horfum á erlenda íþróttaleiki í sjónvarpi, þegar við flettum erlendum tímaritum eða erum á öllum þessum samfélagsmiðlum í dag, þannig að bannið er ekki að virka,“ segir hún.

Starfshópur á vegum menntamálaráðherra hefur áður skilað skýrslu þar sem þessar breytingar voru lagðar til, auk þess sem Félag atvinnurekenda hefur barist fyrir þessum breytingum gegn því að áfengisframleiðendur og smásalar vinni eftir ströngum siðareglum.