Ríkið mun þurfa að greiða ellilífeyrisþegum alls um fimm milljarða króna, eftir að Tryggingastofnun ríkisins var dæmd til að greiða Sigríði Sæland Jónsdóttur, móður Ingu Sæland alþingismanns og formanns Flokks fólksins, skerðingar á ellilífeyri. Dómurinn féll í Landsrétti í dag.
Tryggingastofnun ríkisins var dæmd til að greiða kröfu Sigríðar, upp á tæpar 42 þúsund krónur, með dráttarvöxtum og málskostnaði, 3,4 milljónum króna, er renni í ríkissjóð. Auk þess var ákvæði héraðsdóms um gjafsókn staðfest, en gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði ásamt þóknun lögmanns hennar, Jóns Steinars Gunnlaugssonar, hrl.
Með lögum nr. 116/2016 sem tóku gildi 1. janúar 2017 höfðu verið gerðar breytingar á almannatryggingalögum þar sem bótaflokkarnir ellilífeyrir og tekjutrygging voru sameinaðir undir ellilífeyri, en fyrir breytinguna var tekjutryggingahlutinn skertur vegna fyrrnefndrar gerðar lífeyrissjóðsgreiðslna. Eftir lagabreytinguna var ekki heimilt að skerða ellilífeyri vegna slíkra tekna, vegna meintra mistaka við gerð laganna.
Með lögum nr. 9/2017, sem tóku gildi 1. mars sama ár, voru aftur gerðar breytingar á almannatryggingalögum, um að greiðslur til ellilífeyrisþega úr skyldubundnum lífeyrissjóðum skyldu teljast til tekna þeirra. Átti breytingin að gilda afturvirkt um þá sem öðlast hefðu rétt til töku ellilífeyris fyrir gildistöku laganna.
Sigríður krafðist greiðslu á skerðingu sem hún hafði orðið fyrir á tveggja mánaða tímabilinu á milli lagabreytinganna, en Tryggingastofnun ríkisins hélt því fram sér til varnar að um augljós mistök hafi verið að ræða við lagasetningu laga nr. 116/2016, sem hafi verið leiðrétt með lögum nr. 9/2017.
Í dómi Landsréttar kom fram að eftir gildistöku laga nr. 116/2016 hefði Sigríður átt kröfu til að fá ellilífeyri greiddan, án skerðingar, vegna greiðslna frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, allt fram til þess er lög nr. 9/2017 tóku gildi. Þessi kröfuréttindi væru varin með eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, og þar sem þau hefðu verið gjaldfallin við gildistöku laga nr. 9/2017, yrðu þau ekki skert með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf.