Ríkisstjórnir lykil-landa í Evrópu, Þýskalands, Frakklands, Bretlands og Spánar, hafa krafist ákvörðunar um nýjar kosningar í Venesúela innan átta daga, annars viðurkenni þær Juan Guaido, forystumann stjórnarandstæðinga, sem forseta landsins. Þetta er úrslitakostur fyrir sósíalistann og einræðisherrann Nicolas Maduro sem berst fyrir eigin völdum.
Martina Fietz, upplýsingafulltrúi þýsku ríkisstjórnarinnar, sagði á Twitter að stjórnin mundi viðurkenna Juan Guadio sem bráðabirgða forseta nema boðað yrði til kosninga í næstu viku.
Emmanual Macron, forseti Frakklands, Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, og Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Breta, sendu frá sér svipaðar tilkynningar á samfélagsmiðlum.
Sanchez sagði: „Við knýjum ekki á um innsetningu eða afsögn ríkisstjórna, við viljum lýðræði og frjálsar kosningar í #Venesúela.“
Stjórnir Bandaríkjanna, Brasilíu og Argentínu auk fleiri landa hafa nú þegar lýst stuðningi við Guaido í andstöðu við Maduro.
Rússar saka Bandaríkjastjórn hins vegar um að skipuleggja samsæri gegn Maduro á vettvangi Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Rússum tókst ekki að koma í veg fyrir að öryggisráð SÞ efndi til fundar um hættuástandið í Venesúela.
Maduro hefur krafist þess að Bandaríkjamenn loki sendiráði sínu í Venesúela og kalli starfsmenn sína á brott frá landinu. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði laugardaginn 26. janúar að hann vænti þess að starfsmenn bandaríska sendiráðsins nytu áfram verndar samkvæmt Vínarsamkomulaginu um stjórnmálasamband ríkja hvað sem liði hótunum og tímafrestum Maduros.
Pompeo hvatti Maduro til að láta ekki reyna á staðfestan vilja Bandaríkjastjórnar til að verja sína eigin starfsmenn.
Í ræðu í öryggisráði SÞ hvatti Pompeo ríkisstjórnir heims til að viðurkenna Guaido.
„Annað hvort standa menn með frelsisöflum eða þeir eru liði með Maduro og ofríkismönnum hans,“ sagði utanríkisráðherrann.
Af vardberg.is, birt með leyfi.