
Titringur er innan ríkisstjórnarinnar vegna ummæla Lilju D. Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um að afar ósennilegt sé að opnast muni fyrir flæði fólks til og frá Íslandi fyrr en hægt verði að bólusetja fólk gegn kórónaveirunni.
Ummælin lét Lilja falla í samtali við Stefán Einar Stefánsson ritstjóra ViðskiptaMoggans í Hlaðvarpi blaðsins, Viðskiptapúlsinum.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við Vísi að engin ákvörðun hafi verið tekin í ríkisstjórninni um að loka landinu með þessum hætti umfram núgildandi takmarkanir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra segir í yfirlýsingu á fésbókinni í kvöld, þessi ummæli „hafa skiljanlega vakið upp alvarlegar spurningar, ekki síst innan ferðaþjónustunnar þar sem mjög alvarleg staða er uppi nú þegar.“
Og hún bætir við: „Að gefnu tilefni finnst mér mikilvægt að það komi fram að það hefur engin ákvörðun verið tekin um þetta enda yrði slík meiriháttar stefnubreyting alltaf kynnt með formlegum og viðeigandi hætti.“
Hefði verið forsætisráðherra að tilkynna
Heimildamenn Viljans segja útspil Lilju sérstakt í ljósi hinnar alvarlegu stöðu sem upp er komin. Einn ráðherra, sem ekki vildi láta nafns síns getið, sagði að stefnubreyting af þessu tagi væri eitthvað sem forsætisráðherra ætti að tilkynna þjóðinni um í Guð-blessi-Ísland ávarpi, en ekki menntamálaráðherra í einhverju framhjáhlaupi.
Viljinn spurði Þórólf Guðnason sóttvarnalækni út í ummæli Lilju á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Hann sagði vart raunhæft að binda afnám á ferðatakmörkunum við skilyrði um bóluefni. Það ætti í fyrsta lagi eftir að finna það upp, þróa og prófa og treysta að virki.
„Í mínum huga er það ekki raunhæfur kostur en ég óska þess að ég hafi rangt fyrir mér í því,“ sagði hann og bætti því við að unnið sé að útfærslu takmarkana sem munu verða í gildi næstu vikur og mánuði. Skoðað verði hvernig tekið verði á móti ferðamönnum sem hingað koma og hvernig farið verði með Íslendinga sem ferðast til og frá landinu.
Þetta yrðu íþyngjandi aðgerðir, eins og allt sem sóttvarnayfirvöld væru að vinna með, en takmarkið væri að koma í veg fyrir að faraldurinn blossi upp að nýju hér á landi.