Þess er minnst í dag, að þennan dag fyrir 10 árum, nánar tiltekið 5. júní 2009, undirrituðu sendimenn ríkisstjórnar Íslands, þeir Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, Icesave-samninga við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi í húsakynnum utanríkisráðuneytisins við Rauðarárstíg.
Á vefsíðunni Icesave-samningarnir – afleikur aldarinnar? er rifjað upp að tveimur dögum áður hafði Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi fjármálaráðherra Íslands fullyrt á Alþingi að ekki stæði til að ganga frá samkomulagi „einhverja næstu daga“ og að „áður er til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkisnefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála“.
„Það má eðlilega spyrja hvort núverandi forseti Alþingis hafi sagt þinginu ósatt á sínum tíma? Engin rannsókn fór fram á því,“ segir í færslu á síðunni, sem gera má ráð fyrir að skrifuð sé af höfundi bókar með sama heiti, Sigurði Má Jónssyni blaðamanni og fv. upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar.
Samningurinn var samþykktur á Alþingi 28. ágúst með fyrirvörum og staðfestur af forseta 2. september sama ár. Bretar og Hollendingar höfnuðu hins vegar fyrirvörum Alþingis svo samningurinn tók aldrei gildi.
„Í kjölfarið hófust samningaviðræður á ný og var gerður viðauki við Icesave I, með flestum fyrirvörum Alþingis þó nánar útfærðum og útskýrðum, og er sá samningur hér kallaður Icesave II. Hann var undirritaður 19. október 2009, samþykktur af Alþingi 30. desember sama ár en synjað staðfestingar af forseta 5. janúar 2010. Hinn 6. mars 2010 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um lagafrumvarpið þar sem 1,8% greiddu atkvæði með lagafrumvarpinu en 93,2% gegn því.
Samningurinn sem hér er kallaður Icesave III var undirritaður 8. desember 2010. Sá samningur er oft kenndur við Lee Buchheit sem var formaður íslensku samninganefndarinnar við gerð hans. Hann var samþykktur á Alþingi hinn 16. febrúar 2011 en forseti synjaði lagafrumvarpinu staðfestingar fjórum dögum síðar, 20. febrúar. Þjóðaratkvæðagreiðsla um lagafrumvarpið fór fram 9. apríl sama ár þar sem 40,1% greiddu atkvæði með frumvarpinu en 59,7% gegn því,“ segir í samantekt á Vísindavef Háskóla Íslands.