Tíu eftirminnileg ummæli Íslendinga á tímum kórónuveirunnar

Þórólfur sóttvarnalæknir Guðnason. / Lögreglan.

Fátt annað en kórónuveiran og afleiðingar hennar hefur komist að í umræðunni hér á landi undanfarnar vikur. Viljinn tók saman nokkur eftirminnileg ummæli síðustu vikna í ljósi þess að neyðarstigi almannavarna hefur nú verið aflétt og síðasti upplýsingafundurinn haldinn –– í bili.

„Þetta segir okkur kannski að menn eiga ekki að fá sér tígrisdýr á þessum tíma.“

–– Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi Almannavarna 1. apríl.

„Ef ég fengi að ráða myndi ég stöðva flæði Íslendinga til Tenerife á stundinni. Bara strax, bara núna, bara absolútt. … Ég myndi persónulega opna Egilshöllina eða eitthvað og biðja Íslendinga sem koma til landsins frá Tenerife að gjöra svo vel að vera þar – þangað til að við gætum séð hvort þeir væru sýktir eða ekki. … Það þarf að grípa til aðgerða, ekki fundahalda. Hvurslags eiginlega rugl er þetta, þó svo þau fundi fimm sinnum á dag þá munu þau ekki átta sig á því hvernig veiran er að vinna.“

–– 25.2 Inga Sæland, formaður Flokks fólksins í Harmageddon, 25. febrúar.

Inga Sæland./ Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Öll eigum við vini og ættingja í þeim hópi sem má ekki smitast af veirunni. Enn er ekki of seint að bjarga þeim frá þessari vá. Lausnin á ekki að felast í því að kaupa fleiri öndunarvélar fyrir fárveika, lausnin felst í að hindra veiruna í að smita landsmenn. Þú ert vonandi mjög hugsi, enda hvílir ábyrgðin nú á þínum herðum og ríkisstjórnarinnar. Það er ekki hægt að vísa ábyrgð á sóttvarnarlækni, nú þegar öllum má vera ljóst að aðferð hans er röng og getur leitt til stórtjóns. Önnur margfalt skjótvirkari og öruggari leið er í boði.“

–– Frosti Sigurjónsson fv. alþingismaður í opnu bréfi til forsætisráðherra í Viljanum 19. mars.

Frosti Sigurjónsson fv. alþingismaður.

„Það er alveg skýrt að það á frekar að gera meira en minna. Til­kostnaður­inn af því að gera aðeins of mikið verður alltaf minni en tjónið af því að gera of lítið.“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra 27. mars.

Bjarni Benediktsson. / Ljósmynd: Sjálfstæðisflokkurinn.

„Ríkisstjórn Íslands hefur flúið ábyrgðina sem fylgir því að stjórna og falið lækni efnahagsstjórnina. Fyrir vikið eru allar aðgerðir nú eingöngu líknarmeðferð á sjúklingi sem mun deyja ef hann fær ekki súrefni. Eina leiðin til að bjarga Íslandi frá öðru hruni er að fólk láti í sér heyra og minni stjórnmálamenn á að þeir munu verða dregnir til ábyrgðar fyrir þennan nýja afleik aldarinnar. Sannleikurinn mun koma í ljós.“

–– Jóhannes Loftsson formaður Frjálshyggjufélagsins í aðsendri grein í Morgunblaðinu 2. maí.

Jóhannes Loftsson.

„Þessi veira er skringileg skepna með fullt af stökkbreytingum.“

–– Dr. Kári Stefánsson á upplýsingafundi Almannavarna 15. apríl.

Kári Stefánsson á fundi Almannavarna. / Lögreglan.

„Hvar er Björn Ingi?“

–– Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum kynningarfundi ráðherra um björgunarpakka þrjú í Þjóðmenningarhúsinu 12. maí.

„Góðan og blessaðan daginn.“

–– Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í upphafsorðum sjötíu og eins upplýsingafundar Almannavarna.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. / Lögreglan.

„Það fyrsta sem ég ætla að gera er að knúsa þessa drengi.“

–– Alma Möller landlæknir um þá félaga Þórólf og Víði að aflokinni tveggjametrareglunni.

Alma Möller landlæknir. / Lögreglan.

„Þvílík gæfa að hafa þetta fólk. Umhyggja, fagmennska og öryggi – allt sem við þurftum – nákvæmlega það sem samfélagið þurfti – fordæmalausir tímar – upplýsingafundir þar sem öllu var til skila haldið, þar sem spurningum var svarað og þar sem efasemdir voru viðraðar og ágreiningi var fagnað.“

–– Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra um þríeykið á upplýsingafundi Almannavarna 25. maí.