Tjaldið tekið niður á Austurvelli: „Við eigum öll þessa jörð saman“

Tjaldbúðin á Austurvelli hefur verið tekin niður.

„Við ákváðum að taka tjaldið niður í ljósi áhættuþátta, eins og t.d. heilsu fólks vegna veðursins og fólk var að koma hingað niður á Austurvöll og sýna útlendingaandúð, m.a. var verið að ögra fólki, einstaklingar komu um kvöld og brutu flöskur og ógnuðu okkur,“ segir Elínborg Harpa Önundardóttir, fjölmiðlafulltrúi No Borders Iceland, í samtali við Viljann, en búið er að taka niður tjald og mótmælastöðu samtakanna niðri á Austurvelli. 

„Eins voru ógnanir á samfélagsmiðlum, t.d. með tilvísun í árásina á Nýja-Sjálandi. Þriðja ástæðan var það sem gerðist í dag. Einn flóttamaður, sem ferðaðist hingað með fölsuð skilríki, var handtekinn án fyrirvara og verður líklega færður á Hólmsheiði, hann er aðeins tvítugur og hefur verið á flótta frá því áður en hann varð átján ára. Við ákváðum því að draga okkur í hlé og hvíla okkkur og ráða ráðum okkar um næstu skref.“

„Íslenska ríkið er enn að draga flóttafólk fyrir dómstóla“

Viljinn hafði síðdegis í dag, reynt að ná tali af hælisleitendum niðri á Austurvelli, en hafði ekki erindi sem erfiði.

„Tveir þeirra flóttamanna sem hafa komið mest fram í fjölmiðlum vegna mótmælanna hafa fengið synjun á sínar beiðnir, þar af einn í dag,“ var svarið sem fékkst hjá Elínborgu Hörpu Önundardóttur, við því þá. Þeim verði brottvísað í vikunni.

Elínborg Harpa bauðst á hinn bóginn til að sitja fyrir svörum. Hún sagði synjanirnar hafa gerst furðufljótt, önnur umsóknin hafi aðeins legið inni í tvær og hálfa viku, á meðan aðrir bíði í tvo til þrjá mánuði. Annar hælisleitandi hafi verið handtekinn í dag, eins og fram hefur komið.

„Íslenska ríkið er enn að draga flóttafólk fyrir dómstóla, þegar þau koma á fölsuðum skilríkjum til landsins, sem hefur verið mikið gagnrýnt, en flestir sem eru í þessum aðstæðum, neyðast til að ferðast með einhverskonar fölsuð skilríki.“

Í Útlendingalögum segir: 

32. gr. Refsileysi vegna ólöglegrar komu eða falsaðra eða stolinna skilríkja.  Umsækjanda um alþjóðlega vernd sem kemur ólöglega hingað til lands eða dvelst hér á landi án heimildar verður í samræmi við 31. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ekki refsað geti hann sýnt fram á að hann komi beint frá landsvæði þar sem hann hafði ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða var án ríkisfangs og gat ekki öðlast slíkt, sbr. 39. gr., enda gefi hann sig fram við stjórnvöld eins fljótt og unnt er eða færi ella gildar ástæður fyrir því að hafa ekki gert það, sem og ástæðu fyrir ólöglegri komu eða dvöl. Leiki vafi á að ákvæði 1. málsl. séu uppfyllt skal hann túlkaður umsækjanda í hag.  Ef grunur leikur á að útlendingur sem kemur ólöglega hingað til lands eða dvelst hér á landi án heimildar falli undir 1. mgr. skal lögregla kanna hver tilgangur dvalar viðkomandi er. “

Kalla þetta einangrunarbúðir

„Eins og með svo margt annað, þá geta íslensk yfirvöld snúið sig út úr þessu ákvæði ef flóttamaðurinn kemur frá Evrópuríki.“

Elínborg Harpa Önundardóttir, einn skipuleggjandi mótmælanna, ræddi við Viljann í tjaldinu fræga á Austurvelli. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

En hvernig er hægt að vita að viðkomandi sé ekki með fölsuð skilríki vegna þess að hann sé eftirlýstur fyrir t.d. glæpi? 

„Það er hægt að sjá það strax á fingraförum frá Europol.“

Aðspurð segir Elínborg Harpa að verið sé að reyna að opna á samtal við stjórnvöld um fimm almennar kröfur; „ekki fleiri brottvísanir, að fólk fái efnislegar meðferð mála sinna, jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, að þeir fái atvinnuleyfi á meðan á umsókninni stendur og að einangrunarbúðunum að Ásbrú verði lokað.“

En eru þetta einangrunarbúðir?

„Við viljum nota það orð, þar er 24 tíma öryggisgæsla og bannað að fá gesti, þeir fá ekki útvegað strætókort til að komast til og frá Reykjavík nema þegar þeir eiga erindi við Útlendingastofnun, lögreglu eða í sambandi við læknistíma, en það er venjulega bara í Keflavík. Þeir fá 8.500 krónur á viku, þar af gleypir hraðbankinn 500 krónur af því þegar þeir taka þær út.“

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

En geta þeir ekki sótt um atvinnuleyfi á meðan að umsókn þeirra stendur?

„Jú það er hægt, til að gera það þarf að vera með undirritaðan leigusamning, vera byrjaður að leigja s.s., og undirritaðan starfssamning upp á 100% vinnu og sjúkratryggingu, plús nokkur önnur gögn. Þetta allt þarf að leggja inn hjá Útlendingastofnun og afgreiðsla umsóknarinnar tekur allt að 3 mánuði, segja þau,“ og bætir við að erfitt sé að finna leigusala, borga leigu í 3 mánuði, verandi á engum launum og að auki erfitt að finna atvinnurekendur sem séu tilbúnir að ráða fólk í vinnu sem ekki viti, hvort eða hvenær viðkomandi getur hafið störf.

En hvað með heilbrigðisþjónustuna?

„Þau eiga rétt á henni, en hún er svakalega takmörkuð og ekki sú sama og Íslendingar fá. Útlendingastofnun þarf að vera í fylgd með viðkomandi og þarf að samþykkja hana. Fólk hefur oft lent í því að fá neitun, t.d. við nauðsynlegum lyfjum eða þurfa að bíða svakalega lengi. Heilbrigðiskerfið er bara í rúst, ég tala nú ekki um geðheilbrigðiskerfið.“

No borders standa að mótmælunum

Hverjir standa að mótmælunum?

„Ótrúlega mikið af fólki sko, No Borders Iceland og hópurinn Ekki fleiri brottvísanir.“

Hvert er markmiðið?

„Að veita fólki skilning, sem okkur finnst að allar manneskjur eiga skilið og berjast fyrir mannréttindum og fyrir ferðafrelsi fyrir fólk, við eigum öll þessa jörð saman, við erum öll fædd á þessari jörð, engin velja hvar þau fæðast eða hvort þau lenda í stríði eða ekki. Við viljum vinna með okkar forréttindi til að hjálpa öðrum til að berjast fyrir sínum réttindum.“

Hvernig myndirðu segja að aðstæður fyrir flóttamenn á Íslandi séu í samanburði við önnur lönd?

„Helst vildi ég nefna húsnæðið, sem er frábært, ég vildi óska þess að íslenska ríkið myndi hjálpa fleiri hópum, eins og t.d. heimilislausum eða fólki í neyslu,“ segir Elínborg Harpa, en það sem sé verra en annarsstaðar sé að Dyflinnarreglugerðin gildi hérlendis í 12 mánuði en annarsstaðar í Evrópu í sex mánuði.

Leiðsögumaður sýnir erlendum ferðamönnum styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli í dag. Búið var að festa mótmælaskilti kringum hausinn á frelsishetjunni. / Viljinn: Erna Ýr Öldudóttir.

„Ef að ríkið er lengur en í sex mánuði að vinna umsóknir skv. Dyflinarreglugerðinni, þá á fólk rétt á efnislegri málsmeðferð, sem er svakalega mikilvægt, fyrir svo marga. En hérna má ríkið vera í heilt ár, sem er úr samræmi við alla Evrópustaðla. Svo fá þau bara viku áfrýjunarfrest, til að áfrýja niðurstöðu kærunefndar útlendingamála, en kærunefndin sjálf tekur afstöðu til áfrýjunarinnar. Enginn annar hópur á landinu mundi sætta sig við svona málsmeðferð.“

Hversvegna eru meirihluti hælisleitendanna karlmenn?

„Vegna þess að það er ótrúlega erfitt að komast yfir landamæri, gífurlegt ofbeldi á ýmsum landamærum, fólk er að fara í báta smyglara sem leka og sökkva og landhelgisgæslur sumra landa eru að snúa þeim við. Konur eru oft notaðar sem skiptimynt á milli smyglara, til að komast yfir landamæri, þessir hópar sem eru ekki sjáanlegir eru í svo viðkvæmri stöðu að þeir komast ekki,“ segir hún og bætir við að fleiri af þeim myndu koma ef meiri umburðarlyndi ríkti við landamæri. Margir þessara manna eiga fjölskyldur í löndum þar sem er ekki hægt að búa og eru að leggja ferðina á sig í von um að geta fengið hæli til að geta í gegnum fjölskyldusamning fengið fjölskylduna til sín á öruggan og löglegan máta.“

Stór hluti karlmenn frá Albaníu

En eru allir þessir menn að koma frá löndum sem ekki teljast örugg?

„Stór hluti þeirra sem koma eru frá Albaníu. Það er ekkert annað úrræði fyrir þá af því að Albanía er ekki í ESB.“

Elínborg Harpa segir það flækja málið mjög fyrir þá að koma hingað sem innflytjendur, svipað og fyrir Bandaríkjamenn og Kanadabúa.

Aðspurð um það hversvegna Albanir vilji endilega koma hingað, segist hún halda að þeir séu „eiginlega bara að fara út um allt,“ en kveðst þó ekki vita það nógu vel, hún hafi sjálf mest umgengist fólk frá löndum sem ekki teljist vera örugg lönd.

En hvað er svona slæmt við að vera á Ásbrú?

„Það er einangrunin, sem er að fara alveg með þá. Að vera í átta mánuði einhversstaðar án þess að komast varla úr húsi. Það hafa verið ítrekaðar sjálfsmorðstilraunir, tvær í síðasta mánuði og fleiri fyrir jól.“

Eruði bjartsýn á að mótmælin skili einhverju?

„Við verðum bara að vera það. Forsætisráðuneytið skipulagði einn fund, sem virtist nú bara vera svona sýndarfundur.“