Tók bara 13 daga að svíkja og draga í land

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

Þeir fáu sem lásu sig í gegnum „vegg af texta“ sem var í svokölluðu samkomulagi ríkisstjórnarflokkanna um „heildarsýn í útlendingamálum“ sáu strax að þarna var eitt og annað sem aldrei næði fram að ganga undir þessari ríkisstjórn. „En mig grunaði ekki að það tæki liðsmenn VG bara þrettán daga að svíkja og draga í land,“ skrifar Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, í pistli sínum í Morgunblaðinu í dag.

„Daginn sem dómsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi sínu um breytingar á útlendingalögum spurði ég ráðherrann í fyrirspurnatíma hvort annar eða báðir samstarfsflokkanna í ríkisstjórn hefðu gert fyrirvara við afgreiðslu úr þingflokkum sínum.Dómsmálaráðherra svaraði: „Allir flokkar sem mynda ríkisstjórn Íslands samþykktu þetta frumvarp.“

Rúmum þremur klukkustundum síðar steig Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, í pontu Alþingis og gerði grein fyrir heilum fimm fyrirvörum þingflokks VG við frumvarpið.

Sameiginlegi skilningur og stefna ríkisstjórnarflokkanna um „Heildarsýn í útlendingamálum“ lifði semsagt í litla 13 daga.

Nákvæmlega jafn marga daga og það tók Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn að leggja fram gildandi útlendingalög eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, hafði stigið til hliðar úr ríkisstjórninni – en hann var sá sem helst stóð í vegi fyrir þeirri nálgun,“ segir Bergþór ennfremur.