Einstaklingur á níræðisaldri lést af völdum COVID-19 sjúkdómsins á síðastliðnum sólarhring. Þetta kom fram í fréttum Ríkisútvarpsins í dag og staðfesti Jóhann K. Jóhannson samskiptastjóri almannavarna það við fréttastofu.
Um var að ræða sjúkling á Landakoti, samkvæmt frétt Vísis, en þar hefur verið tekist á við stóra hópsýkingu undanfarna daga.
Þetta er tólfta dauðsfallið hér á landi sem rakið er til COVID-19 og annað í þriðju bylgju faraldursins.
86 ný smit greindust innanlands sl. sólarhring og virðist faraldurinn því ekki í rénun, eins og vonast hafði verið eftir. Upplýsingafundur almannavarna verður næst haldinn kl. 11 í fyrramálið og má búast þar við að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir viðri eða kynni hertar takmarkanir hér á landi til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.