„Á páskadag bárust okkur fréttir af hryðjuverkaárás á Sri Lanka, árás sem slegið hefur menn óhug úti um allan heim og er stærsta hryðjuverkaárásin síðan árásin á tvíburaturnana í New York var gerð árið 2001. Árásin á Sri Lanka beindist sérstaklega að kirkjum og kristnum þegar páskamessur stóðu yfir. Öfgahópur íslamista myrti rúmlega 250 kirkju- og hótelgesti að morgni páskadags og 500 eru særðir.“
Þetta sagði Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, við upphaf þingfundar í gær. Sagði hann voðaverkin hafa beint athyglinni að ofsóknum gegn kristnu fólki í heiminum.
„Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna falla hundruð kristinna í hverjum mánuði af völdum margvíslegra ofsókna. Kristnir er sá trúarhópur í heiminum sem mest verður fyrir barðinu á ofsóknum. Talið er að 245 milljónir kristinna manna sæti ofsóknum vegna trúar sinnar en ríflega 4.000 létu lífið á síðasta ári af þeim sökum. Í Norður-Kóreu eru 70.000 manns í þrælkunarbúðum vegna kristinnar trúar. Utanríkisráðherra Breta hefur kallað eftir alþjóðlegri úttekt á ofsóknum gegn kristnu fólki um allan heim sem hann segir alvarlegt vandamál sem fari vaxandi.
Við Íslendingar erum þjóð með yfir 1000 ára farsæla sögu kristni í landinu. Við eigum að vera í fararbroddi þegar kemur að því að gagnrýna ofsóknir gegn kristnu fólki í heiminum. Fáir hafa staðið vörð um mannréttindi kristinna hópa í löndum þar sem slíkar ofsóknir eiga sér stað,“ sagði hann.
Barátta fyrir mannréttindum er einnig barátta fyrir trúfrelsi.
Birgir lýsti þeirri skoðun að við Íslendingar eigum að nýta tækifærið sem við höfum nú með setu okkar í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og fordæma ofsóknir gegn kristnum og krefjast úrbóta í löndum þar sem ástandið er verst, eins og í mörgum múslimaríkjum.
„Barátta fyrir mannréttindum er einnig barátta fyrir trúfrelsi. Tölum kröftuglega gegn ofsóknum gegn kristnum mönnum. Sýnum nú umheiminum að Ísland á sæti í mannréttindaráðinu,“ sagði hann.