Töluverð áhætta að opna landið: Sóttvarnalæknir stýri framkvæmdinni

Kári Stefánsson á fundi Almannavarna. / Lögreglan.

„Nú ætla stjórnvöld að opna landið þann 15. júní og það er engin spurning að það er tölverð áhætta tekin með því. Stóra spurningin er hvort að áhættan væri önnur ef við biðum mánuð eða mánuði í viðbót; yrði hún minni eða jafnvel meiri?“

Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í svari við færslu Frosta Sigurjónssonar fv. alþingismanns á fésbókinni, en Frosti veltir því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að taka áhættuna af opnun landsins fyrir öfáa erlenda ferðamenn.

„Það tók þjóðina 10 vikur að stöðva veiruna. Hætta á smiti er orðin sáralítil og nú er mögulegt að hér verði gróska í innlendri ferðaþjónustu fyrir landsmenn. Mannlíf er að færast í eðlilegra horf og starfsemi innlendra fyrirtækja getur blómstrað á ný,“ segir Frosti og bætir við að ekki þurfi nema örfáa erlenda ferðamenn til að bera veiruna aftur inn í landið. Þá þyrfti að hefja harðar og kostnaðarsamar aðgerðir á nýjan leik. Þá væri innlenda ferðamennskan hrunin, allt mannlíf og atvinnulíf í dróma.

Frosti Sigurjónsson fv. alþingismaður.

Kári bendir Frosta á í svari sínu að hann hafi haft rangt fyrir sér á sínum tíma með gagnrýni á sóttvarnayfirvöld og hrakspár hans varðandi veiruna hér hafi ekki ræst.

„Frosti, þú verður að reyna að læra af reynslunni þótt það sé þér á móti skapi og kannski dálítið erfitt. Það er svo fyrir flest okkar (í það minnsta mig). Þú hélst því fram að sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda væru kovitlausar og spáðir okkur hörmungum og þú varst með nokkrar góðar röksemdir máli þínu til stuðnings. Það vill hins vegar svo til að aðgerðir stjórnvalda voru hárréttar og nú höfum við faraldurinn þar sem hann á að vera. Góðar röksemdir eru nefnileg bara góðar röksemdir og þær reynast stundum einfaldlega vitlausar (sem er miklu auðveldara að ákvarða eftir á),“ segir Kári.

Verðum að horfast í augu við hættuna

Og hann bætir við:

„Kosturinn við að opna fyrr er að þá er líklegt að fjöldi þeirra sem kæmu væri minni en gallinn sá að þá er líklegt (en ekki víst) að það leyndust hlutfallslega fleiri sýktir meðal þeirra.

Ég held að við verðum að horfast í augu við hættuna sem felst í því að opna landið einhvern tímann og mín skoðun er sú að við eigum nýta okkur tækifærið meðan ekki er margra að vænta til þess að prófa það kerfi sem við ætlum að nota til þess að skima og almennt höndla aðkomufólk.

Dr. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Lögreglan

Það er hins vegar frumskilyrði að hafa til staðar kerfi sem er hægt að útfæra vel og best væri að það yrði undir stjórn sóttvarnarlæknis vegna þess að þjóðin treystir honum. Það traust er nauðsynlegt til þess að hægt sé að taka á þessu verkefni á skynsamlegan máta. Staðreyndin er sú að sóttvarnarlæknir og teymi hans hafa sýnt og sannað að ef koma upp ný tilfelli eru yfirgnæfandi líkur á því að þau geti komið í veg fyrir frekari útbreiðslu með því að beita skimun, rakningu, einangrun og sóttkví,“ segir Kári Stefánsson.