Töluvert um óánægju og úrsagnir úr Sjálfstæðisflokknum

Elinóra Inga Sigurðardóttir, forstjóri Elás ehf, formaður Orkunnar okkar og Kvenn.

Mikil átök eiga sér stað innan Sjálfstæðisflokksins, vegna deilna um þriðja orkupakkann, þátttökuna í stjórnarsamstarfinu með Vinstri grænum og fleiri málum, eins og Viljinn hefur greint frá í morgun og undanfarna daga. Viðskiptafréttastjóri Morgunblaðsins segist vita um margar úrsagnir úr flokknum, formaður Orkunnar okkar sagði sig úr flokknum í gær og Óskar Magnússon, lögmaður og þekktur sjálfstæðismaður í áratugi, segir að forystan verði að ná betri tengslum við fótgönguliðana.

Elinóra Inga Sigurðardóttir, forystukona samstöðuhópsins Orkunnar okkar, skýrir frá því að hún hafi í gær, eftir framkomu Sjálfstæðisflokksins m.a. í orkupakkamálinu, sagt sig úr flokknum, með svofelldu bréfi:

Hr. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.

Sæll Bjarni,

Ég segi mig hér með úr Sjálfstæðisflokknum. Við eigum ekki samleið lengur. Ég hef verið í grasrót flokksins í næstum 30 ár og hef verið formaður í hverfafélagi og verið kosin í atvinnuveganefnd að minnsta kosti þrisvar sinnum á Landsfundum, ásamt því að fara í prófkjör 2009.

Ég hef unnið á kosningaskrifstofum flokksins mörgum sinnum, bakað þar vöfflur og eldað súpur. Núna er komið að leiðarlokum. Ég veit ekki á hvaða leið flokkurinn er á núna og skil ekki þetta stjórnlausa valdaframsal til Evrópskra stofnana.

Framkoma ykkar Alþingismanna í garð grasrótar flokksins og þverpólitíska hópsins sem myndar Orkuna okkar er með öllu óskiljanleg. Þið virðist ekki vilja hlusta á rök gegn þriðja orkupakkanum og fær maður á tilfinninguna að þar liggi að baki einhverjir eiginhagsmunir frekar en að hugsa um sjálfstæði þjóðarinnar.

Ég hef sagt það fyrir mörgum árum að EF Sjálfstæðisflokkurinn passi ekki uppá sjálfstæði þjóðarinnar að þá á hann að skipta um nafn. Þið hafið þrátt fyrir langa stjórnarsetu ekki afturkallað ESB umsóknina. Þið hyggist gegn vilja flokksins og meirihluta þjóðarinnar troða inn á okkur orkupökkum framtíðarinnar. Þið takið fullan þátt í stimpilpúðaafgreiðslu Alþingis á öllu sem frá ESB kemur. Ekki er annað að sjá en ætlun ykkar sé að troða okkur þar inn bakdyramegin, þvert á vilja flokksmanna og þjóðarinnar. Fyrir utan það að nú fær VG að rústa heilbrigðiskerfinu á ykkar vakt.

Þess vegna segi ég mig hér með úr Sjálfstæðisflokknum. Við eigum ekki samleið lengur.

Með kveðju
Elinóra Inga Sigurðardóttir

Einn þeirra sem deila færslu Elinóru, er Óskar Magnússon lögmaður og fv. útgefandi Morgunblaðsins.