Viðgerðir standa enn yfir á eimbaðinu í Sundhöll Reykjavíkur, en það hefur verið lokað um nokkurn tíma. Tilkynnt hafði verið á vef Sundhallarinnar að viðgerðum yrði lokið í gær, 8. febrúar, en tilkynningin hefur nú verið uppfærð.
Viljinn brá sér í sund í gær til að kanna málið, og enn var eimbaðið lokað um óákveðinn tíma, að því er virðist. Nokkuð virðist vera um bilanir og skemmdir til lengri eða skemmri tíma í þeim nýja hluta Sundhallarinnar sem var opnaður með pompi og prakt í desember 2017.
Þar má telja kortahlið í kvennaklefanum, vask í kvennaklefanum, hurð sem ekki fellur inn í dyrastafinn á klósettinu í kvennaklefanum svo að hvorki er hægt að loka né læsa að sér og eimbaðið, sem hefur verið lokað um tíma.
Í gær þegar blaðamaður fór í sund voru glerveggir og gluggar utandyra hulin með krossviðarplötum á nokkrum stöðum og útiklefi karla var lokaður vegna einhverra vandamála, en búið var að gera við vaskinn í kvennaklefanum og taka biluðu klósetthurðina af hjörunum.
Viljinn hafði spurst fyrir hjá forstöðumanni Sundhallarinnar, Loga Sigurfinnssyni, sem svaraði því að mótor hafi gefið sig í karlahliði og því hafi verið tekinn mótor úr öðru kvennahliðinu. Klósetthurðin hafi verið tekin af og send í viðgerð og um eimbaðið sagði hann:
„Eimbaðinu var lokað á meðan viðgerð í lofti færi fram. Ákveðið var að breyta einangrun þar sem gamla var að springa. Á auglýsingu stóð að stefnt yrði að opnun þann 8. febrúar. Þar sem það tókst ekki og óvíst hvaða dag nákvæmlega yrði opnað var ákveðið að setja ekki dagsetningu. Unnið er hörðum höndum að viðgerð sem vonast er til að klárist næstu viku.“