Tómas A. Tómasson, sem oftast er kallaður Tommi og kenndur við hamborgara áður en hann varð þingmaður Flokks fólksins fyrir síðustu kosningar, kvaddi sér hljóðs á þingi í dag og setti afar mikilvægt mál á oddinn, nefnilega kærleikann.
„Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Mig langar til að venda mínu kvæði í kross í þetta skiptið og tala um kærleikann. Ég var að hlusta á útvarpið í morgun og þá heyrði ég að hljómsveitin Nýju fötin keisarans var að senda frá sér nýtt lag: Er ég tilbúinn að elska? Næsta sem ég heyrði var auglýsing frá þekktum veitingastað sem sagði: Kærleikurinn er allt sem þarf. Mig langar að lesa fyrir ykkur hérna boðskap sem ég fékk sendan í tölvupósti í dag, sem er svona:
Veistu hvað það þýðir að elska, að finna hjarta þitt svo barmafullt af gleði og þakklæti að þú getur ekki haldið því, það verður að streyma til allra mannvera umhverfis þig? Þetta er dýrleg tilfinning um vellíðan og að vera eitt með öllu lífi. Allur ótti, hatur, öfund, afbrýðisemi og græðgi hverfur úr vitundinni þegar kærleikur er til staðar. Ekkert rými er fyrir slíka eyðileggjandi neikvæða krafta í nærveru kærleikans. Sé hjarta þitt kalt skynjar þú ekkert kærleiksstreymi frá þér. Örvæntu samt ekki en líttu í kringum þig og finndu eitthvað sem þú getur elskað. Þér gæti fundist það smávægilegt en sá litli neisti gæti tendrað alla vitund þína uns kærleikurinn logar í brjósti þér. Mundu að jafnvel hinn smæsti lykill getur opnað hinar þyngstu dyr. Kærleikurinn er lykillinn að öllum lokuðum dyrum. Lærðu að nota hann uns allar dyr hafa verið opnaðar. Byrjaðu strax þar sem þú ert. Opnaðu augu þín og hjarta, sjáðu þörf og svaraðu henni.
Og svo skulum við muna að Bítlarnir sungu: All you need is love.“
(Forseti (Birgir Ármannsson): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska.)