Yfirtaka harðasta vinstrisins breytti Verkamannaflokknum í óaðlaðandi „uppdiktaða mótmælahreyfingu“, er haft eftir fyrrverandi forsætisráðherra og f.v. formanni Verkamannaflokksins, Tony Blair, um gjörsigraðan flokk sinn.
Um það er skrifað í breska blaðið The Guardian í gær, og Viljinn þýddi.
Tony Blair hvetur félaga sína í Verkamannaflokknum til að láta af stefnu og pólitískri draumsýn Jeremy Corbyn, til að tryggja viðgang flokksins. Í ögrandi yfirlýsingu sagði þessi þrefaldi sigurvegari kosninga í Bretlandi, að ef Corbynistar verða áfram í stjórn, þá séu dagar Verkamannaflokksins sem stjórnmálaafls, taldir.
Corbyn, og nánustu bandamenn hans ,hafa kallað eftir sjálfsskoðun eftir ósigur í þingkosningunum síðasta fimmtudag, sem skiluðu lakasta árangri Verkamannaflokksins síðan árið 1935. Nú stendur yfir barátta um stjórn hans þar sem fylgihnettir Corbyn virðast staðráðnir í að halda völdum.
Misgáfuleg hugmyndafræði og algjör vanhæfni
„Verkamannaflokkurinn, uppfullur af sjálfum sér – og það var hann í lokin – lagði sitt á vogarskálarnar til að BREXIT yrði að veruleika. Það var ekki okkur að kenna, vegna þess að sökin er hjá talsmönnum þess. En sambland af misgáfulegri hugmyndafræði og algjörri vanhæfni leyfði því að gerast“, sagði fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins við Breska ríkisútvarpið í Newsnight á miðvikudag.
„Ysta vinstrið hefur tekið Verkamannaflokkinn yfir… Ef það verður áfram í forystu, þá held ég að Verkamannaflokkurinn sé búinn að vera.“
Verkamannaflokkurinn vann 203 þingsæti í kosningunum, og fór niður um 59 sæti, og sáu hlut sinn í atkvæðunum falla um 7,8 prósentustig í 32,2%, en íhaldsmenn unnu 365 þingsæti, og fóru upp um 47 sæti, með 43,6% atkvæða.
Þrátt fyrir að stuðningsmenn Corbyn bendi á að þeim hafi tekist að fá meira en 10 milljónir atkvæða, hafi hörmulegur ósigur leitt til þess að flokkurinn þurfi að horfa inn á við.
Fyrr á miðvikudag flutti Blair ræðu í London, þar sem hann lýsti vinstrinu sem tók Verkamannaflokkinn yfir sem „uppdiktaðri mótmælahreyfingu jaðarskoðana, sem er algerlega ófær um að geta orðið að trúverðugum stjórnvöldum“.
Verði ekki breytt um kúrs kemst flokkurinn aldrei aftur í stjórn
Hann sagði að fáir myndu veðja gegn áratuga stjórn íhaldsmanna miðað við ástand Verkamannaflokksins í dag. Breytti flokkurinn ekki um kúrs, stæði hann frammi fyrir möguleikanum á að komast aldrei aftur í ríkisstjórn.
„Val Verkamannaflokksins stendur nú um að endurnýja sig sem framsækinn, óíhaldssaman valkost í breskum stjórnmálum, sem hægt er að taka alvarlega, eða skorast undan slíkum metnaði, sem verður þá til þess að flokknum verður skipt út,“ sagði Blair.
Hann gagnrýndi Corbyn fyrir að hafa leitt Verkamannaflokkinn til ósigurs með hugmyndum sem kjósendur höfðu engan áhuga á. „Hann persónugerði pólitíska hugmyndafræði, vörumerki, hálfgerðan byltingar-sósíalisma, og blandaði efnahagsstefnu öfgavinstrisins saman við djúpa andúð á utanríkisstefnu Vesturlanda, “ sagði hann.
„[Þetta] hefur aldrei höfðað til hefðbundinna kjósenda Verkamannaflokksins, og mun aldrei höfða til þeirra. Hann kynnti til sögunnar blöndu af afvegaleiddri hugmyndafræði og botnlausri vanhæfni sem var móðgun við þá.“
Skipbrot róttækrar sósíalískrar áætlunar
Auk loforðs um aðra þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem hann ætlaði að vera hlutlaus, bauð Corbyn upp á róttækar sósíalískar áætlanir með hærri opinberum útgjöldum, þjóðnýtingu innviða og skatta á efnafólk.
Stuðningsmenn Corbyn hafa haldið því fram, að Blair hafi svikið verkalýðinn með því að færa flokkinn til hægri, og grafa undan trú á stjórnmálamönnum með stuðningi við innrásina í Írak undir forystu Bandaríkjanna árið 2003.
Blair sagði að flókin og óákveðin afstaða Corbyn varðandi BREXIT hafi gert bæði andstæðingum og talsmönnum brottfarar Bretlands úr Evrópusambandinu óánægða. „Við sýndum hlægilega óákveðni, vanmátum báðar hliðar umræðunnar og skildum kjósendur okkar eftir án leiðsagnar eða forystu,“ sagði hann.
Mælt með vali á hefðbundnari forystu framvegis
Andy Burnham, borgarstjóri Stór-Manchester, bað Verkamannaflokkinn opinberlega um að velja leiðtoga úr „hefðbundnum röðum“ vegna þess að flokkurinn sé orðinn að „bergmálshelli frjálslynda vinstrisins“ í London.
„Það sem ég meina með því er að feta í fótspor John Smith og Clement Attlee – manna sem skildu að Verkamannaflokkurinn þarf að gera hvort tveggja. Vera róttæk í þeim breytingum sem við viljum gera, en með áætlun sem er ásættanleg fyrir meirihluta Breta, og við virðumst hafa gleymt hvernig það er gert,“ sagði hann.
Vísaði hann til höfnunarinnar á róttækum stjórnmálum Michael Foot á níunda áratugnum, og sagði: „Við urðum að læra þá lexíu árið 1983 og ég held að við þurfum að rifja það allt upp aftur núna árið 2019.“
Skrifstofa Corbyn neitaði að tjá sig.