Tregða stofnana við að upplýsa um mál orðin sérstök meinsemd

Sunna Karen Sigurþórsdóttir, leiðarahöfundur Fréttablaðsins.

„Ber er hver að baki nema sér al­manna­tengil eigi. Þannig er að minnsta kosti tíðar­andinn í ís­lensku stjórn­kerfi. Enginn er maður með mönnum nema með að minnsta kosti einn upp­lýsinga­full­trúa sér við hlið,“ segir Sunna Karen Sigurþórsdóttir í leiðara Fréttablaðsins í dag.

Hún bendir á að fjórir blaða­full­trúar hafi verið á hvern blaða­mann í Banda­ríkjunum árið 2012 og í fyrra voru þeir orðnir sex. Sama staða sé uppi í Bret­landi þar sem um þrjú þúsund manns starfa við upp­lýsinga­gjöf með einum eða öðrum hætti fyrir ríkis­stjórnina þar í landi. Þótt engin sér­stök greining hafi farið fram hér á landi sé ekki ó­lík­legt að svipað sé upp á teningnum hér.

„Tregða stofnana við að upp­lýsa um brýn mál er orðin að sér­stakri mein­semd í ís­lensku sam­fé­lagi. Oft þurfa blaða­menn að gera hlé á frétta­flutningi vegna tregðunnar til að veita sjálf­sagðar upp­lýsingar. Fjöl­miðlar þurfa svo að ráð­stafa tíma og fjár­munum sem víða eru ekki til, til þess að stofna til mála­reksturs í þeim til­gangi að nálgast upp­lýsingar sem klár­lega eiga erindi við al­menning,“ segir hún.

Sunna Karen segir að þrátt fyrir upplýsingalög hafi upplýsingaflæði ekki aukist, nema síður sé.

„Það heyrir til undan­tekninga að fá við­töl við opin­bera starfs­menn vand­kvæða­laust, því helst vilja þeir allir fá spurningarnar skrif­legar, vita­skuld í gegnum fjöl­miðla­full­trúann, sem reynir að á­kveða hvað eigi erindi í fjöl­miðla og hvað ekki. Sam­hliða þessu hrúgast inn mál á borð úr­skurðar­nefndar upp­lýsinga­mála, svo mjög að það getur tekið allt að ár að fá úr­skurð frá nefndinni,“ segir hún ennfremur.