Trudeau fær bakþanka og lokar á hælisleitendur

Stefnubreyting virðist hafa átt sér stað hjá hinni frjálslyndu vinstri stjórn Justin Trudeau í Kanada varðandi málefni hælisleitenda, en frumvarp um breytingar á lögum um málaflokkinn fékk að fljóta með frumvarpi að fjárlögum svo lítið bæri á. Þær eiga að draga úr umsóknum hælisleitenda í mörgum ríkjum samtímis og flakki á milli ríkja (e. „asylum shopping“). Frá þessu greindi BBC á vef sínum í gær. 

Lögfræðingar og talsmenn hælisleitenda vara nú við því að fyrirhugaðar breytingar gætu farið á skjön við lög og alþjóðlega sáttmála. Breytingin myndi t.d. útiloka þá hælisumsækjendur sem hafa þegar sótt um í löndum sem eru með samninga um skipti á upplýsingum við Kanada, þ. á m. Bandaríkin, Bretland, Ástralíu og Nýja-Sjáland.

Umsækjendur myndu líka missa réttinn til munnlegrar fyrirtöku umsóknar sinnar fyrir óháðum dómum og nefndum. Mannréttindasamtök hafa undirritað yfirlýsingu þar sem þau hvetja forsætisráðherrann til að hafna frumvarpinu.

Kúvending miðað við fyrri yfirlýsingar

Síðan Trudeau varð forsætisráðherra, hefur Kanada öðlast orðstír sem ríki þar sem hælisleitendur eru velkomnir, á meðan mörg önnur ríki hafa verið að herða reglur þar um. Eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti lokaði bandarísku landamærunum fyrir fólki frá sjö löndum, þar sem múslímar eru í meirihluta, tísti Trudeau m.a. á twitter: „Kanadamenn munu bjóða ykkur velkomin, án tillits til hverrar trúar þið eruð.“

Síðan þá hafa yfir 40 þúsund hælisleitendur komið yfir bandarísku landamærin til Kanada og hafa bæir við landamærin hafa átt í erfiðleikum með að þjónusta þær þúsundir sem þar bíða eftir afgreiðslu sinna mála.

Ástandið hefur leitt til mótmæla og vaxandi óánægju við landamærin.