„Þessi Truell er enginn kjáni. Sæstrengur til Íslands er á lista yfir styrkhæf innviðaverkefni hjá ESB og um leið og þriðji orkupakkinn verður samþykktur á Alþingi verður Ísland skuldbundið til að ryðja úr vegi hindrunum gegn tengingum yfir landamæri,“ segir Frosti Sigurjónsson fv. þingmaður Framsóknarflokksins og einn af talsmönnum Orkunnar okkar í samtali við Viljann.
Frétt okkar frá í morgun af áformum Truells um lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands hefur vakið mikla athygli, enda því jafnan haldið fram í umræðunni að enginn áhugi sé á lagningu sæstrengs nú um stundir og þar að auki fáist ekki fjármagn í slíkar risaframkvæmdir.
Frosti segir að íslensk stjórnvöld muni fá fjárfesta á borð við Truell í bakið, þráist þau við að samþykkja lagningu sæstrengs að orkupakkanum samþykktum.
„Ef stjórnvöld á Íslandi svíkjast um í þeim efnum mun Truell hefja málsókn gegn ríkinu og skaðabæturnar verða háar. Pólitískar yfirlýsingar ESB og EFTA binda bara þessi stjórnvöld en skerða ekki rétt einkaaðila eins og Truell til að sækja bætur hjá íslenskum skattgreiðendum. Það verður að fresta þessu orkupakkamáli þar til þessi áhætta hefur verið rannsökuð,“ segir hann.