Truflanir Rússa á GPS merkjum í Noregi ógn við flugöryggi og hamla leit

Rússnesk hernaðaryfirvöld á vígvæddum Kólaskaganum rétt austan við landamæri Noregs í norðri hafa truflað GPS merki í norskri lofthelgi fimm sinnum á síðustu 17 mánuðum segir Thomas Nilsen, ritstjóri vefsíðunnar Barents Observer á síðunni sunnudaginn 20. janúar.

Á síðunni er vitnað í upplýsingafulltrúa norska utanríkisráðuneytisins sem segir að norsk yfirvöld hafi fundið að þessari framgöngu Rússa við borgaraleg og hernaðarleg yfirvöld í Moskvu.

Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, tók málið upp í desember 2018 þegar hún hitti Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, í tengslum við ÖSE-ráðherrafund í Mílanó á Ítalíu.

Á liðnu hausti neituðu Rússar að eiga nokkra aðild að truflunum á GPS-kerfinu yfir héruðunum Finnmörku og Troms í Norður-Noregi. Þeir hafa ekkert sagt vegna truflana á kerfinu nú í janúar. Rússneska sendiráðið í Osló svarar ekki fyrirspurnum frá Barents Observer um málið.

Ellen Katrine Hætta, lögreglustjóri í Austur-Finnmörku, segist óttast um virkni neyðarkerfis í þessum nyrsta hluta Noregs. Hún telur öryggi almennings geta verið stefnt í voða eftir að enn bárust fréttir frá flugmönnum á leið frá Tromsø til Kirkenes um GPS-truflanir. Lögreglustjórinn segir að GPS-merki skipti sköpum fyrir lögreglu og björgunarsveitir við leit að fólki í stórviðri.

Tor Mikkel Wara dómsmálaráðherra tekur undir með lögreglustjóranum og segir í tölvubréfi til Barents Observer að truflanir Rússa „auki hættuna á samgönguslysum“.

Geta spillt leitar- og björgunaraðgerðum

Ráðherrann hefur einnig áhyggjur af því hver áhrifin kunni að verða fyrir þá sem sendir eru til björgunaraðgerða vegna slysa eða mannshvarfa. Truflanirnar geti spillt leitar- og björgunaraðgerðum.

Ståle Sveinungsen starfar í norskri siglingavaktstöð á smáeyjunni Vardø í Barentshafi. Hann segir hættulegt fyrir sjófarendur ef þeir átta sig ekki á við stjórn skipa sinna að þeir hafi ekki lengur aðgang að GPS-leiðsögukerfinu. Hann tekur fram að hann viti ekki til þess að slíkt atvik hafi orðið. Þá bendir hann á að það styttist í að evrópska Galileo-kerfið komi við hlið bandaríska GPS-kerfisins. Þá fjölgi leiðsögukerfum fyrir sjófarendur og aðra sem eiga mikið, jafnvel líf sitt, undir slíkum kerfum.

Vitnað er í Kristin Enstad í norska utanríkisráðuneytinu sem segir norsk stjórnvöld líti truflanir Rússa „mjög alvarlegum“ augum. Þær séu ógnun við „flugöryggi í norskri lofthelgi“.

Leyniþjónusta norska hersins staðfestir við TV2 að 9. og 10. janúar hafi GPS-merki verið trufluð á svæðum við rússnesku landamærin.

Þegar NATO-varnaræfingin mikla, Trident Juncture, stóð 16. október til 7. nóvember 2018 lokuðu Rússar fyrir GPS-merki yfir Troms og Finnmörku að sögn norska varnarmálaráðuneytisins við Barents Observer.

Norðmenn halda úti litlum flugherafla við landamærin. Venja er að þyrla aðstoði leyniþjónustu hersins og landamæraverði hersins á Kirkenes-svæðinu. Örsjaldan má sjá Orion-eftirlitsvélar og NATO-flutningavélar á Kirkenes-flugvelli. Vestar á Banak-flugvelli við Lakselv halda Norðmenn úti F-16 orrustuþotum og öðrum hervélum.

Norðmenn hafa sett þá reglu að NATO-vélar stundi ekki æfingar við rússnesku landamærin. Reglan á að draga úr líkum á að Rússar telji sér ögrað.

Öll fimm skiptin frá 2017 sem Rússar hafa gripið til GPS-truflana í norskri lofthelgi má setja í samband við heræfingar, annaðhvort í Noregi eða á Kólaskaganum.

Nú í janúar varð truflananna vart þegar unnið var að því að búa breskar hraðliðs-þyrlur til aðgerða í flugstöðinni í Bardufoss vegna æfingarinnar Clockwork. Þetta er í fyrsta sinn sem Apache-árásarþyrlur frá Bretlandi taka þátt í norðurslóðaæfingum í Troms. Herflugvöllurinn er um 450 km fyrir vestan rússnesku landamærin, Finnland teygir sig þar að auki norður á milli Rússlands og Noregs á þessum slóðum.