Trúin, fjölskyldan, vináttan og gagnkvæm virðing skiptir hvað mestu máli

Gegnum allar þær breytingar sem ég hef orðið vitni að á umliðnum árum hefur trúin, fjölskyldan og vináttan skipt mig hvað mestu máli og orðið mér styrkur og huggun í lífinu, segir Elísabet II. Bretadrottning í jólaávarpi sínu til þegna breska samveldisins sem sjónvarpað verður á morgun.

Í ávarpi sínu leggur drottningin áherslu á mikilvægi þess að koma vel fram við annað fólk, jafnvel þótt menn greini á um hitamál samfélagsins. Er talið ljóst, að þar eigi hún vil hinar hatrömmu deilur um Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu sem verður í mars á næsta ári.

„Jafnvel í harkalegustu deilumálum er ávallt best að koma fram við hvert annað af gagnkvæmri virðingu og það er fyrsta skrefið í því að öðlast betri skilning,“ segir drottningin ennfremur, en hún er orðin 92 ára að aldri.

Hún bætir því við að kristilegur boðskapur um frið á jörð og manngæsku ætti sjaldan betur við en nú og þau skilaboð falli aldrei úr gildi.