Trump boðar miklu betri fríverslunarsamning við Breta

Donald Trump bandaríkjaforseti fagnaði í morgun stórsigri Boris Johnsons í bresku þingkosningunum og sagði felast í þessu margvísleg tækifæri fyrir Bretland og Bandaríkin.

Boðaði Trump að Bandaríkjamenn muni nú geta gert mjög umfangsmikinn fríverslunarsamning við Breta, þegar útgangan úr Evópusambandinu er um garð gengin í lok janúar, eins og stefnt er að.

Bætti forseti Bandaríkjanna því við, að slíkur tvíhliða samningur millum Bandaríkjanna og Bretlands geti orðið miklu stærri og hagfelldari en sá sem Bandaríkin gætu gert við Evrópusambandið fyrir hönd allra hinna ólíku þjóða þess.