Trump forseti er stærsti vandi NATO

Tveir fyrrverandi fastafulltrúar Bandaríkjanna hjá NATO: Nicholas Burns (2001-2005) og Douglas Lute (2013-2017) sem starfa nú báðir við Harvard-háskóla skrifa grein í The Washington Post í tilefni af 70 ára afmæli NATO 4. apríl 2019 undir fyrirsögninni:  Trump forseti er stærsti vandi NATO

Þeir segja NATO enn vera öflugasta hernaðarbandalag heims. Í fyrsta sinn í sögu sinni glími það við þá einstæðu hættu að ekki sé fyrir hendi öflug, stefnuföst forysta af hálfu forseta Bandaríkjanna. Allir forsetar Bandaríkjanna hafi frá því að Harry S. Truman vann að stofnun bandalagsins litið á NATO sem lífsnauðsynlegt fyrir hagsmuni þjóðar sinnar. Trump hafi hafi valið allt aðra leið.

Höfundarnir segjast hafa samið skýrslu fyrir Harvard Belfer Center: NATO sjötíu ára: Bandalag í kreppuog rætt við fyrrverandi og núverandi leiðtoga NATO-ríkja. Næstum allir hafi talið Trump brýnasta og erfiðasta vandamál NATO.

Forsetinn virðist ekki hafa djúpa sannfæringu fyrir NATO. Hann hafi lýst efasemdum um sjálfan kjarna bandalagsins, 5. gr. sáttmála þess um að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll. Hann hafi dregið lappirnar gegn árásargjarnasta andstæðingi bandalagsins, Vladimir Pútin Rússlandsforseta. Þá sé Trump fyrsti forsetinn sem kalli Evrópusambandið „fjandmann“ frekar en samstarfsaðila Bandaríkjanna.

Höfundarnir fagna því að mikill meirihluti forystumanna repúblíkana og demókrata á þingi Bandaríkjanna séu ósammála Trump um gildi NATO fyrir Bandaríkin. Með því að lýsa stuðningi við NATO taki þingmenn undir með eindregnum stuðningi almennings við NATO eins og hann birtist árið 2018 í skoðanakönnun á vegum Chicago Council on Global Affairs.

Vitnað er til þeirra sem taka undir með Trump og þriggja höfuðraka þeirra fyrir réttmæti þess að draga gildi NATO í efa. Í fyrsta lagi segja þeir að verkefni NATO hafi í raun lokið þegar kalda stríðinu lauk. Þessu andmæla höfundarnir með því að minna á að Rússar leitist við að grafa undan stöðugleika í NATO-löndunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Þá sé einnig litið fram hjá árásum Pútins á kosningar í Bandaríkjunum og Evrópu á árunum 2016 – 2018 í því skyni að veikja innri lýðræðislegan styrk ríkjanna. Það sé enn meginmarkmið NATO að halda aftur af valdafíkn Rússa þar til Pútin og aðrir af kynslóðinni sem hlaut sovéska þjálfun hverfi frá völdum. Þá standi bandalagið ekki aðeins fyrir áskorunum frá Rússum.

Í öðru lagi haldi Trump því fram að bandamennirnir í NATO reyni að „hagnast“ á kostnað Bandaríkjamanna. Höfundarnir segja að vissulega skapi það NATO vanda að evrópsk aðildarríki verji litlu fé til varnarmála. Sérstaklega ættu Þjóðverjar að leggja meira af mörkum. Til þess verði þó að líta að í fjögur ár samfellt frá innlimun Pútins á Krímskaga hafi raunútgjöld NATO-ríkjanna til varnarmála hækkað – samtals um 87 milljarða dollara. Trump ætti að halda áfram baráttu sinni á þessu sviði en jafnframt hætta að ganga fram sem höfuðgagnrýnandi og taka sér þess í stað stöðu sem sá forystumaður samstöðu sem brýn þörf sé á innan NATO.

Þriðja gagnrýnisatriðið sé að NATO skipti ekki lengur neinu meginmáli fyrir öryggi Bandaríkjanna. Höfundarnir segja staðreyndir bendi til annars: Bandalagsríkin hafi komið Bandaríkjunum til aðstoðar eftir 9/11 og virkjað 5. gr. Atlantshafssáttmálans. Þau hafi litið á árás Osama bin Ladens á Bandaríkin sem árás á sig. Hermenn frá öðrum NATO-ríkjum hafi barist við hlið bandarískra hermanna í Afganistan og meira en 1.000 þeirra fallið í átökum þar. Enn þann dag í dag haldi flest þessara ríkja úti herafla í Afganistan.

Höfundarnir nefna fleiri dæmi um átök, gegn hryðjuverkamönnum í Sýrlandi og Írak og auk þess í Afríku; friðargæslu í Bosníu og Kosovo.

Hvernig sem á málið sé litið sé NATO hagstætt fyrir Bandaríkin á sviði stjórnmála, efnahagsmála og hermála.

Á komandi áratugum muni Bandaríkjamenn eiga í tvíþættri baráttu við forræðisstjórnir í Kína og Rússlandi. Annars vegar verði háð hugmyndafræðileg barátta sem snúist um þá vaxandi sannfæringu meðal ráðamanna í Moskvu og Peking að þeirra kerfi hafi yfirburði gagnvart bandaríska kerfinu. Bandaríkjamenn þarfnist óskoraðs stuðnings lýðræðislegra bandamanna sinna í NATO til að hafna forræðiskerfinu þegar umræður um þetta harðna á alþjóðavettvangi á sama hátt og John F. Kennedy og Ronald Reagan þurftu á stuðningi þeirra að halda á sínum tíma.

Í baráttunni um forystu í hátæknigreinum skipta NATO-bandamennirnir einnig miklu að mati höfundanna. Þar keppi vestmenn við sjálfsöruggari Kínverja á sviði gervigreindar, tölvutækni og líftækni. Bandaríkjamönnum takist ef til vill frekar en ella að halda forskoti sínu gagnvart Kínverjum ef þeir nýti sér vísindi og framleiðni bandamanna sinna í Evrópu og einnig á Indó-Kyrrahafssvæðinu. NATO skipti sköpum þegar valdahlutföll séu metin milli Bandaríkjanna og Rússlands og Kína sem eigi enga raunverulega bandamenn.

Grein sinni ljúka Nicholas Burns og Douglas Lute á þessum orðum:

„Trump ætti að íhuga þá lokastaðreynd sem allir forverar hans skildu. Bandaríkin eru miklu öflugri innan NATO þegar þjóðin tekst á við þessi verkefni heldur en ef hún stendur ein. NATO er ekki aðeins hluti fortíðarinnar heldur óhjákvæmilegur vettvangur ef Bandaríkjamenn vilja ná því torræða markmiði sem þeir hafa þráð síðan í síðari heimsstyrjöldinni: örugg Bandaríki með sameinaða, lýðræðislega og friðsama Evrópu sem nánasta alþjóðlega samstarfsaðila.“

Af vardberg.is, birt með leyfi.