„Til að vernda öryggi okkar og efnahagslíf, ætlum við Bandaríkjamenn að einbeita okkur að því að vera sjálfum okkur nógir í orkumálum“, sagði Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, þar sem hann ávarpaði Heimsráðstefnu efnahagsmála, í Davos í Sviss í morgun.
Í máli hans kom fram að með mikilli styrkingu bandarísks efnahagslífs, hafi verulega dregið úr svartsýnum spám um lægð í efnahagslífi heimsins, sem bandaríska hagkerfið hefur mikil áhrif á. Ríkisstjórn Trump hafi einbeitt sér að því að stappa stálinu í þjóðina, minnka báknið, lækka skatta, gera betri viðskiptasamninga og draga úr atvinnuleysi, en það hafi allt saman tekist framar björtustu vonum á kjörtímabilinu.
Bættur hagur hinna verst settu og vinnandi fólks lykilatriði
Sem dæmi hafði ríkisstjórn hans lofað tveimur milljónum nýrra starfa á tímabilinu, en hafi nú þegar skilað sjö milljónum. Tíu milljón manns hafi hætt á bótum og farið að vinna. Hann lagði mikla áherslu á að bæta hag hinna verst settu og hinna vinnandi stétta, það væri leiðin til árangurs. Hann kvaðst hafa látið eyða átta eldri reglugerðum fyrir hverja nýja sem sett hafi verið, og hvatti ríki heims til að „lyfta myllusteini báknsins af herðum borgaranna.“
Trump lagði einnig áherslu á orku- og umhverfismál í ávarpi sínu, og hvatti til bjartsýni, en snupraði bölsýnismenn.
„Bandaríkin eru í langefsta sæti í framleiðslu á olíu og jarðgasi í heiminum, langefsta og enginn kemst þar nærri. Á meðan mörg Evrópulönd berjast við hrikalega orkureikninga, hefur bylting í orkumálum Bandaríkjanna sparað bandarískum fjölskyldum um 2.500 dollara árlega, með lækkun rafmagnsreikninga og ýmsum framförum sem menn héldu að gætu ekki orðið. En jafnframt, og ekki síður, lægri verða á bensíndælunni.
Sjálfstæði í orkumálum með góðri umgengni um náttúruna
Slíkur árangur hefur náðst, að Bandaríkin þurfa ekki lengur að flytja inn orku frá fjandsamlegum ríkjum. Vegna þeirrar ofgnóttar af bandarísku jarðgasi, sem nú er fáanleg, þurfa evrópskir bandamenn ekki lengur að vera háðir óvinveittum orkusölum heldur. Við viljum hvetja evrópska bandamenn okkar til að nýta sér hið mikla bandaríska framboð, og öðlast þannig raunverulegt orkuöryggi.
Með bandarísk fyrirtæki og rannsóknir í fararbroddi, stöndum við nú á þröskuldi þess að hafa óendanlegar birgðir af orku, þ.m.t. eru hefðbundir orkugjafar, fljótandi gas, hrein kol, næsta kynslóð kjarnorku auk tækni sem byggir á gasi í föstu formi. Á sama tíma er ég stoltur að segja frá því að Bandaríkin eru á meðal þeirra landa sem eru með bestu vatns- og loftgæði á jörðinni. Við ætlum að halda því þannig og þannig hefur það verið síðastliðin 40 ár. Við munum leggja okkur fram við að varðveita mikilfengleika sköpunarverks Guðs og náttúrulega fegurð jarðarinnar.
Í dag er mér ánægja að tilkynna að Bandaríkin munu taka þátt í „Þúsund milljarða trjáa-átakinu“, sem verður ýtt af stokkunum hérna á ráðstefnunni. Þúsund milljarðar trjáa! Með því viljum við sýna styrk og fordæmi í að græða, rækta og grisja skógana okkar betur. Nú er ekki tími fyrir svartsýni, heldur bjartsýni. Ótti og efasemdir eru ekki góð hugsanaferli, því nú er tíminn fyrir gríðarmiklar vonir, gleði, bjartsýni og að láta hendur standa fram úr ermum.
Hafna beri síbylju falsspámanna og bölsýnismanna
Til að ná utan um tækifæri framtíðarinnar, verðum við að hafna síbylju bölsýnismanna og spám þeirra um ragnarök. Þeir eru arftakar loddara og falsspámanna fortíðarinnar, þeir eru allsstaðar, og vilja að okkur gangi illa, en við leyfum því ekki að gerast. Þeir spáðu offjölgun mannkynsins á sjöunda áratugnum, alheims hungursneyð á áttunda áratugnum og því að olíubirgðir heimsins myndu klárast á tíunda áratugnum. Þessir ofstækismenn krefjast alltaf sömu hlutanna, að fá að algert vald til að fá að drottna, umbylta og stjórna öllum hliðum lífs okkar.
Við munum aldrei leyfa róttækum sósíalistum að eyðileggja efnahagslífið okkar, leggja landið í rúst eða afnema frelsið okkar. Bandaríkin munu alltaf verða stolt, sterkt og ósigrandi virki frelsis. Í Bandaríkjunum skiljum við það sem bölsýnismennirnir neita að horfast í augu við. Vaxandi og líflegt markaðshagkerfi, sem horfir til framtíðar, lyftir mannsandanum með sköpunargleði upp yfir hvaða hindranir sem er.“
Ræðan í heild er hér: