Donald Trump hefur varað þjóð sína við því að Kórónaveirufaraldurinn geti staðið yfir fram á haust, eða jafnvel lengur.
Á blaðamannafundi í gærkvöldi bað hann Bandaríkjamenn að fara varlega, ekki koma saman í hópum sem eru stærri en tíu í einu og forðast bari, veitingastaði, líkamsræktarstöðvar og fjölmenni almennt.
Trump sagði þjóð sinni að búa sig undir baráttu við „ósýnilegan óvin“ sem væri „svo smitandi“.
Allir eldri borgarar í Bandaríkjunum hafa nú verið hvattir til að vera heima og allir sem það geta eru beðnir um að vinna heiman frá sér. Skólahald hefur verið fellt niður um öll Bandaríkin.
Forsetinn sagði yfirvöld vilja gera allt til að vera á undan faraldrinum í stað þess að elta hann, eins og sumar þjóðir hefðu þurft að gera.
Á dögunum gaf Trump í skyn að faraldurinn nú myndi ganga yfir á skömmum tíma, eða aðeins fáeinum vikum. Í gærkvöldi var komið annað hljóð í strokkinn:
„Þeir halda að þetta geti verið gengið yfir í ágúst. Mögulega júlí, en þetta gæti líka tekið lengri tíma en svo.“