Trúnaðarrof við kjósendur, útsvarsgreiðendur, borgarbúa og lýðræðið sjálft

Andrés Magnússon blaðamaður.

„Hirðuleysi borgarstjóra og hirðar hans um persónuverndarlög og góða stjórnsýslu er hneyksli út af fyrir sig. Hér er þó alls órætt um hinar pólitísku vélar, sem að baki búa.“

Þetta segir Andrés Magnússon, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, á fésbók þar sem hann gerir úrskurð Persónuverndar frá í gær að umtalsefni, þar sem fram kom að Reykjavíkurborg hefði brotið lög um meðferð persónuupplýsinga með bréfasendingum og sms-skilaboðum til valinna hópa fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Andrés segir að vel þekkt sé af niðurbroti á skoðanakönnunum að fylgi framboða er mjög mismikið eftir aldursskeiðum, tekjum, kynferði o.s.frv og það séu mikilvægar upplýsingar.

„Það má ekki viðgangast að valdhafar geti varið fjármunum almennings til þess að reyna að ýta undir aukna kosningaþátttöku einstakra hópa kjósenda, sem þeir telja líklegra að séu fylgispakir sér en öðrum: Að þeir misnoti borgarsjóð eins og hér var gert til þess að hafa áhrif á kosningahegðun til þess að viðhalda völdum sínum,“ segir Andrés.

„Í því felast margháttuð svik og trúnaðarrof við útsvarsgreiðendur, kjósendur, borgarbúa og lýðræðið sjálft,“ bætir hann við.