Tugir tilkynninga um alvarlegar hótanir gegn ráðamönnum landsins og stofnunum

Lögreglan: Hari

Á undanförnum áratug hafa komið upp nokkur tilvik þar sem upplýsingar berast lögreglu um einstaklinga sem hafa haft viðdvöl eða dveljast hér á landi og eru grunaðir um tengsl við alþjóðleg hryðjuverkasamtök, segir í nýrri skýrslu Greiningardeildar Ríkislögreglustjóra (GRD) um hryðjuverkaógn á Íslandi.

Skýrslan var birt í dag, en þar er meðal annars vísað til þess að í byrjun árs hafi manni með tengsl við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamska ríkið (ISIS) verið vísað úr landi, en hann var þá búsettur á Norðurlandi með fjölskyldu sinni. Samkvæmt upplýsingum erlendra samstarfsaðila greiningardeildarinnar hafi hann verið meðlimur í samtökunum.

Þá segir í skýrslunni að greiningardeildin sjái merki „samþættrar öfgahyggju á Íslandi“. Því hugtaki sé ætlað ná yfir ensku hugtökin „salad bar extremism” og „hybrid ideology“. Ljóst sé að lítill en virkur hópur hér á landi aðhyllist öfgafulla hugmyndafræði og að sama skapi búi lögreglan yfir upplýsingum um „einstaklinga hérlendis sem aðhyllast ofbeldisog öfgafulla hugmyndafræði“

„Hugsanlegt er að hér á landi séu einstaklingar sem aðhyllast ofbeldis- og öfga­fulla hugmyndafræði og þrói með sér getu og ásetning til að fremja hryðjuverk,“ segir ennfremur í skýrslunni og einnig að á hverju ári berist greiningardeildinni tugir tilkynninga um alvarlegar hótanir gegn ráðamönnum og stofnunum.

Greiningardeildin vísar jafnframt til þess að hafa fengið upplýsingar frá erlendum samstarfsaðilum um einstaklinga sem tengjast alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum og hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi. Hryðjuverkaógn hafi aukist í nágrannaríkjum og fyrir liggi opinberar áskoranir alþjóðlegra hryðjuverkasamtaka um að hrinda í framkvæmd árásum á Vesturlöndum.

Þá er þess að lokum getið að þekkt séu að víða séu stríðsátök í þeim löndum sem eru upprunaríki flóttamanna og á átakasvæðum starfi virk hryðjuverkasamtök. Aukin spenna ríki nú í alþjóðasamskiptum og „ógn vegna hugsanlegra hryðjuverkaárása á Íslandi árið 2024 stafi, að mati GRD, fyrst og fremst frá einstaklingum sem fyrir sakir þess að aðhyllast
ofbeldisfulla öfgahyggju og bera hatur til samfélagsins, séu reiðubúnir að fremja hryðjuverk.

„Á Vesturlöndum telja sérfræðingar lögreglu einstaklinga sem aðhyllast ofbeldisfulla hægriöfgahyggju eða ofbeldisfullan íslamisma skapa mesta ógn,“ segir ennfremur í skýrslunni.