„Er remdesivir lækning við Covid-19? Svarið er að sjálfsögðu ekki jafneinfalt og spurning ber með sér. En nú berast upplýsingar frá áreiðanlegum aðilum að ákveðinn árangur sé í sjónmáli – en nokkrir varnaglar þurfa að fylgja.“
Þetta segir Magnús Karl Magnússon, prófessor í læknisfræði við Háskóla Íslands, á fésbókinni í morgun í tilefni af því að Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna, þar sem dr. Anthony Fauci (Þórólfur Guðnason þeirra Bandaríkjamanna) situr við stjórnvölinn, sendi frá sér fréttatilkynningu um fyrstu tölfræðigreiningu á stórri lyfjarannsókn á lyfinu Remdesivir gegn kórónuveirunni Covid-19.
Magnús Karl skrifar ennfremur:
„Rúmlega eitt þúsund sjúklingar tóku þátt í þessari rannsókn og náðu þeir sem fengu tilraunalyfið Remdesivir um þriðjungi hraðari bata en þeir sem fengu lyfleysu (mjög marktækar niðurstöður, p<0.001) og einnig virtist dánartíðni hugsanlega lækka, (8 vs 11.6%, en þetta náði ekki alveg marktækni p=0.059). Í þessari rannsókn voru sjúklingar með alvarlegan sjúkdóm, þ.e.a.s. inniliggjandi sjúklingar með merki um lungabólgu (svo sem lágt súrefni í blóði og sambærileg einkenni).
Það sem maður horfir á þegar slík rannsókn er kynnt eru nokkrir hlutir.
Númer eitt, var rannsóknin með samanburðarhóp sem var sambærilegur (með öðrum orðum var varpað hlutkesti hvort sjúklingar fengu tilraunalyf eða lyfleysu). Já, þessi rannsókn var af þeirri gerð.
Númer tvö, hverjir fengu að taka þátt (inclusion criteria). Þetta hjálpar manni að meta hvaða sjúklingahóp getur maður ályktað að rannsóknin gildi um. Hér eru það sjúklingar með alvarlega sjúkdóm sem hafa þurft að leggjast inn og einnig að hafa sjúkdóm sem er farinn að valda alvarlegum einkennum frá lungum.
Númer þrjú, hvað var mælt sem útkoma (primary og secondary endpoint). í þessari rannsókn var það batahraði sem var primary endpoint. Síðan var fjölmargt annað mælt sem svokallað „secondary endpoint“. Þar má nefna það mikilvægasta sem er hvort sjúklingar dóu eða ekki. Batahraði er góður endapunktur fyrir slíka rannsókn en auðvitað er sá mikilvægasti þó hvort sjúklingar deyja eða ekki.
En mikilvægast af öllu er þó að sjá rannsóknina svart á hvítu í vísindariti. Það er óvenulegt að fréttatilkynningar séu birtar á þessu stigi, venjulega gerist slíkt þegar rannsóknin er búin að fara gegnum nálarauga vísindaritsins með ritrýni. Það má þó benda á að tilkynningin kemur frá virtri stofnun og það má vænta þess að vísindagrein komi hratt út með þessum niðurstöðum. En við skulum halda niður í okkur andnanum. Það eru ekki öll kurl komin til grafar en þetta eru tvímælalaust góðar fréttir. En munum: Hér er ekki komin töfralækning. En lyfjarannsóknir taka iðulega smá skref. Ef þau liggja í rétta átt þá getum við verið hóflega bjartsýn.
Að lokum, sambærileg rannsókn frá Kína var að birtast og hún sýndi ekki jákvæðar niðurstöður. Hún var þó að mörgu leyti mjög svipuð, sama lyf í sömu skömmtum og frekar svipaður sjúklingahópur, þ.e.a.s. sjúklingar með alvarlegan Covid sjúkdóm. Hún var þó mun minni (sem gæti skýrt muninn). Við þurfum þó að sjá svart á hvítu í útgefnum vísindagreinum samanburð sem gæti hjálpað okkur að túlka.“