Tvö skip brjóta sér nú leið í gegnum Norðursiglingaleiðina í átt að höfninni Sabetta á Jamal-skaga í Rússlandi.
Þetta eru skipin Boris Sokolov, 214 m langt þéttivökva-tankskip sem lagði úr höfninni í Nansha í Kína 11. desember og Boris Davydov, 299 m langt LNG-tankskip (það er fyrir fljótandi jarðgas) sem hélt af stað 12. desember.
Rússnesk stjórnstöð Norðurleiðarsiglinga (NSRA) hefur skráð skipin á siglingu á stjórnsvæði sínu. Á vefsíðunni Barents Observer segir hins vegar föstudaginn 11. janúar að skipin birtist ekki á MarineTraffi ferðavefsíðu skipa.
NSRA segir skipin væntanleg til Sabetta 20. janúar.
Siglingunni er lýst sem afar erfiðri. Það sé mjög flókið að stýra skipunum í gegnum þykkan ísinn. Rússneskar ísrannsóknastöðvar segja að allt að tveggja metra þykkur eins árs gamall ís sé á Austur-Síberíu-hafi þar séu einnig eldri íshraukar. Sömu sögu er að segja Laptev-haf og norðaustur hluta Kara-hafs, þar er þykkur ís.
Reuters-fréttastofan segir að skipin njóti ekki aðstoðar ísbrjóta á siglingunni. Aðeins eitt skip, Eduard Toll, hefur siglt áður á þessum slóðum á þessum árstíma. Í janúar 2018 sigldi skipið frá Suður-Kóreu til Sabetta. Skipið naut hins vegar aðstoðar kjarnorkuknúins rússnesks ísbrjóts.
Skipin Boris Sokolov og Boris Davydov eru smíðuð til siglinga í ís (Arc7-ísgerð) og geta brotist í gegnum allt að tveggja metra þykkan ís.
Boris Sokolov var smíðað í kínversku Guangzhou-skipasmíðastöðinni. Skipið var afhent eiganda sínum, gríska félaginu Dynacom Tankers Management, 4. desember. Þetta er fyrsta skipið sem smíðað er til að flytja þéttivökva frá Sabetta.
Boris Davydov var smíðað í Daewoo-skipasmíðastöðinni í Suður-Kóreu. Þetta er 10. skipið sömu gerðar sem smíðað er fyrir Jamal-LNG-verkefnið. Það er 97.000 tonn og getur flutt allt að 172.600 rúmmetra af LNG.
Á árinu 2019 afhendir Daewoo-skipasmíðastöðin fimm skip til viðbótar af þessari gerð.
Af vardberg.is, birt með leyfi.