Umboðsmaður Alþingis ræðir Samherjamálið á opnum nefndarfundi

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.

Opinn fundur verður haldinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd miðvikudaginn 6. mars kl. 9:15. Umfjöllunarefni fundarins er lög um gjaldeyrismál og stjórnsýsla Seðlabanka Íslands við framkvæmd gjaldeyriseftirlits.

Fundurinn verður haldinn í húsnæði nefndasviðs Alþingis í Austurstræti 8-10 og verður opinn fulltrúum fjölmiðla og almenningi meðan húsrúm leyfir. Gestir fundarins verða Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, Maren Albertsdóttir, aðstoðarmaður umboðsmanns, og Þorvaldur Hauksson lögfræðingur.

Óhætt er að segja, að Umboðsmaður Alþingis hafi skilað þungorðu áliti um stjórnsýslu Seðlabankans í Samherjamálinu svokallaða á dögunum og lýstu þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þeir Óli Björn Kárason og Brynjar Níelsson, því þá yfir, að þeir vildu fá yfirferð um álitið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og kalla síðar yfirstjórn Seðlabankans til fundar um málið.

Bein útsending verður frá fundinum á vef Alþingis og á sjónvarpsrás Alþingis.

Fundurinn verður haldinn samkvæmt reglum um opna fundi fastanefnda Alþingis.