Myndbandavefurinn YouTube, sem er í eigu netrisans Google, hefur ítrekað fjarlægt myndband þar sem tveir bandarískir bráðalæknar gagnrýna harðar aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirunnar og krefjast þess að útgöngubanni og fleiri takmörkunum verði aflétt.
Læknarnir á myndbandinu, Dan Erickson og Artin Massihi, eru frá Bakersfield í Kaliforníu. Þeir efndu á eigin spýtur til blaðamannafundar á Netinu og er óhætt að segja að hann hafi vakið mikla athygli. Milljónir manna hafa horft á hann gegnum ýmsa samskiptamiðla, enda þótt mörg tæknifyrirtæki hafi jafnharðan fjarlægt myndbandið þar sem það stríði gegn viðmiðum um falsfréttir og almannaheill. Bandarísk læknasamtök hafa sömuleiðis fordæmt framferði tvímenninganna.
Fjölmargir lesendur Viljans hafa undanfarna daga sent tengla á myndbandið á ritstjórn og sömuleiðis hefur það verið áberandi á íslenskum samfélagsmiðlum.
Læknarnir tveir starfa við bráðamóttöku heilbrigðisstofnunar í Bakersfield. Þeir halda því fram og setja fram tölfræði, máli sínu til stuðnings, að kórónuveirufaraldurinn covid-19 sé ekki jafn hættulegur og haldið hefur verið fram. Dánartíðnin sé lægri en gefið hafi verið í skyn og ekkert réttlæti þær fordæmalausu aðgerðir sem gripið hafi verið til.
Benda þeir á að samtöl við kollega á bráðamóttökum víðsvegar um Bandaríkin bendi til að dánartíðnin vegna Covid-19 sé stórlega ofmetin og þar að auki verði hræðslan við að smitast af veirunni til þess að fólk með aðra sjúkdóma veigri sér við að leita til læknis. Það verði aftur til þess að öll athygli heilbrigðiskerfisins beinist að covid-19 og allir aðrir sjúkdómar, sumir hverjir mjög alvarlegir, hverfi algjörlega í skuggann.
Tvenn samtök lækna sem starfa í bráðamóttökum hafa gagnrýnt læknana tvo fyrir framtak þeirra. Djarfar fullyrðingar þeirra og ályktanir byggi ekki á víðtækum rannsóknum eða áliti heilbrigðisstarfsfólks almennt og gangi í berhögg við þá þekkingu sem það hafi aflað sér við meðhöndlun á sjúklingum sem smitast hafi af veirunni undanfarið.
Enda þótt Youtube og fleiri miðlar hafi fjarlægt myndbandið, sem upphaflega var sett inn af fréttastöðinni 23ABC í Bakersfield, eru þeir fjölmargir til sem fagna málflutningi læknanna tveggja og hlaða því jafnharðan upp aftur. Þess vegna gefst lesendum Viljans hér að neðan kostur á að kynna sér það sem fram fór á nefndum blaðamannafundi.
Ákvörðun Google um að fjarlægja myndbandið hefur verið gagnrýnd talsvert af fjölmiðlafólki og læknum í Bandaríkjunum, enda stríði það gegn ákvæðum um tjáningarfrelsi að ekki megi deila með rökum á stjórnvaldsaðgerðir og stefnu einstakra ríkja í heilbrigðismálum. Gagnrýnin hugsun eigi alltaf rétt á sér og þöggun eða aðrir ritskoðunartilburðir eigi ekki að eiga sér stað þegar kemur að umfjöllun um vísindi og læknisfræði.