Hrafn Jökulsson, rithöfundur og skáksnillingur, hefur tilkynnt um stofnun nýs stjórnmálaflokks í færslu á facebook síðu sinni seint í gær með orðunum:
„Á morgun mun Elísabet, stóra systir, panta Tjarnarbíó, svo við getum stofnað almennilegan Umhverfisflokk – með stóru U – sem tekur að sér varðveislu íslenskrar náttúru, menningar og gætir að þeim, sem helst þurfa. Fylgist með og verið með – orustan um Ísland er rétt að byrja.“
Ekki náðist í Hrafn við vinnslu fréttarinnar, en Elísabet Kristín Jökulsdóttir, skáld, staðfesti þetta í samtali við Viljann. Hún sagði þetta vera hugmynd sem þau systkinin hafi fengið og hafi verið nauðsynlegt „að koma út í kosmósið“. „Við viljum bara halda þennan fund fyrst og sjá hvernig viðtökurnar verða“, sagði Elísabet, en enn á eftir að ákveða stað og stund nánar.
Virkjanir eins og alkóhólismi
„Þetta snýst aðallega um þrennt, náttúruvernd Íslands, uppkaup útlendinga á landi á Norðausturlandi og að lokum stefnuleysi í virkjanamálum. Einnig mál er varða Eldvörpin og árnar í Skagafirði, svo dæmi séu tekin“ en Elísabet segir Vinstri græna ekki hafa staðið sig í stykkinu, t.d. á Norðausturlandi, í kjördæmi Steingríms J. Sigfússonar. Hún sakar Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um að forðast umræðuna.
Elísabet finnur mikil líkindi með umræðunni um virkjanir nú og voru í aðdraganda byggingar Kárahnjúkavirkjunar, en þá hafi verið talað um að það yrði síðasta stóra virkjunin. „Þetta er bara eins og alkóhólisminn, það þarf alltaf meira og meira“.
Einnig gagnrýnir Elísabet að landeigendur geti virkjað án þess að það þurfi umhverfismat, á meðan „almenningur fái varla leyfi til að byggja kvist ofan á húsið sitt.“