„Í ljósi umræðu, þar sem borið hefur á þeim sjónarmiðum að loftslagsbreytingar, hlýnun af manna völdum, eigi sér ekki stað – eða að umræða vísindamanna um þau mál litist af ýkjum – vill Umhverfisstofnun árétta að loftslagsbreytingar eru staðreynd. Mýmargar rannsóknir sýna að svo er. Áhrifin verða alvarleg ef ekki verður gripið í taumana.“
Svona hljómar yfirlýsing sem birt var á vef Umhverfisstofnunar í gærmorgun, undir yfirskriftinni „Alvarleg áhrif ef ekki verður gripið í taumana.“
Viljinn hafði samband við Umhverfisstofnun, til að kanna hvert tilefni yfirlýsingar stofnunarinnar hefði verið, og náði tali af upplýsingafulltrúa hennar, Birni Þorlákssyni.
Stofnunin hefur fylgst með umræðunni úr ýmsum áttum
„Við höfum fylgst með úr ýmsum áttum, með því sem við höfum litið á sem afneitunarumræðu sl. vikur. Umhverfisstofnun er hlynnt því að vísindalegar niðurstöður séu virtar. Okkar ósk er að umræða sé upplýst og byggist á góðum gögnum. Við erum samt ekkert að fylgjast með fólki á facebook eða þessháttar.“
Viljinn spurði þá hvort sammæli sé mikilvægara en gagnrýnin umræða, t.d. þar sem vísindaheimurinn er ekki sammála um loftslagsmálin.
„Ég vitna bara í Andra Snæ [Magnason, rithöfund], og segi ef vísindasamfélagið hefði ekki ekki sameinast um að finna lyf við alnæmi, að þá hefði það ekki tekist.“