Umræðan í Noregi: EES-samningurinn hefur gert okkur að nýlendu

Þinghús norska Stórþingsins í Osló. Mynd/Stortinget

Þegar Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) var gerður árið 1994, vissu fáir, ef einhverjir, hverjar langtíma afleiðingarnar yrðu. Ég var einn af þeim sem undirbjó samningaviðræðurnar á sínum tíma, og það var ekki fyrr en seinna sem ég áttaði mig á því hvað við höfðum gert.

Þá var ákveðið að innleiða gildandi regluverk Evrópusambandsins (ESB), en einnig regluverk sem ESB mundi ákveða í framtíðinni. Það hefur smám saman verið að renna upp fyrir mér hvaða afleiðingar það hefur.

Øystein Steiro eldri.

Þetta segir Øystein Steiro eldri* , í grein sem birtist í nordnorskdebatt.no um helgina. Viljinn þýddi.

Þetta þýðir að við erum að missa æ meira sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt til ESB og það er ekki lengur hið lýðræðislega kjörna þjóðþing sem ákvarðar þróun mála í Noregi, eins og stjórnarskráin kveður á um. Framvinda mála er í raun ákvörðuð af 55 þúsund skriffinnum framkvæmdastjórnar ESB í Brussel, sem eru hvorki norskir, né kjörnir af norsku þjóðinni.

Verið er að éta upp sjálfræði og sjálfstæði Noregs

Frá því að EES-samningurinn var undirritaður árið 1994, og þangað til í mars 2016, hefur ESB krafist innleiðingar á 11.093 tilskipunum. Margar þeirra hafa tekið gildi. Raunveruleikinn er sá að verið er að éta sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétt Noregs upp, einn bita í einu. með hverri nýrri Evróputilskipun sem innleidd er.

Þetta er andstætt stjórnarskránni. Það er líka í andstöðu við vilja kjósenda, sem höfnuðu inngöngu Noregs í ESB í þjóðaratkvæðagreiðslunum árið 1972 og árið 1994.

Erna [Solberg, forsætisráðherra Noregs] veit þetta. Utanríkisráðuneytið hefur fyrir löngu áttað sig á þessu. Þetta veit Siv [Jensen, fjármálaráðherra Noregs] og lögfræðingadeild dómsmálaráðuneytisins. Og þetta vita líka efri stéttir háskólasamfélagsins.

Á hundrað ára afmæli stjórnarskrárinnar, sama ár og EES-samningurinn varð 20 ára árið 2014, gáfu rannsakendur ARENA Miðstöðvar fyrir evrópskar rannsóknir hjá UiO út látlausa en mikilvæga bók: „Norska þversögnin: Um samband Noregs við Evrópusambandið.“

Samband Noregs við ESB ólýðræðislegt og grefur undan stjórnarskránni

Bókin var þögguð niður af fjölmiðlum jafnt sem stjórnmálastétt Noregs, en niðurstaða rannsakenda var bæi skýr og afdráttarlaus: „Samband Noregs við ESB í gegnum EES-samninginn er bæði andstætt stjórnarskrá og grefur undan lýðræðinu.“

Prófessor Erik Oddvar Eriksen hjá ARENA benti á að á þessum tímapunkti sé það samband sem Noregur hefur þróað við ESB í gegnum EES-samninginn, í raun, andstætt niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 1994, þar sem aðild að ESB var hafnað. „EES-samningurinn brýtur gegn grunnhugmynd stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn, þar sem að norskir borgarar séu nú settir undir tilskipanir sem þeir geta ekki haft nein áhrif á til lýðræðislegs samþykkis eða höfnunar.“

Það er óskiljanlegt að við skulum vera með ríkisstjórn, sem er það fyllilega ljóst, að þau eru að afhenda sjálfstæði þjóðarinnar til erlendra yfirvalda, og brjóta í leiðinni á stjórnarskrá landsins. Grafa undan lýðræðinu og láta í leiðinni eins og slík grundvallarátök stjórnmálanna séu ekki að eiga sér stað.

Norska ríkisstjórnin gerði lítið úr vilja bresku þjóðarinnar

Í stað þess að nota tækifærið sem BREXIT gæti fært okkur til að binda endi á EES-samstarfið. og endursemja um viðskipti við Bretland, sem er okkar stærsta viðskiptaland, hefur ríkisstjórn Solberg fordæmt BREXIT með hroka, hina lýðræðislegu ákvörðun kjósenda í Bretlandi.

Ríkisstjórnin, sem er leidd af Íhaldsmönnum ásamt Frjálslyndum, með Vinstrið og Krf í liðinu og stuðning Verkamannaflokksins í utanríkisnefnd Stórþingsins, hefur þess í stað verið ákveðið að halda áfram að mjaka Noregi inn í ESB af fullum krafti undir ratsjánni.

Ef farið verður með Norður-Noreg, með auðlindum sínum og verðmætasköpun, eins og nýlendu af miðstjórnarbákninu í Osló, þá mun Noregur í heild sinni með hjálp EES-samningsins verða að nýlendu ESB.

Þessvegna gæti verið ástæða til að minna Ernu Solberg, Siv Jensen og Jonas Gahr Støre [formann norska Verkamannaflokksins] á, að frammistaða norskra stjórnvalda í Brussel í dag er nákvæmlega sú sama og varð grundvöllur þess að bandarískur almenningur gerði uppreisn og sleit sig og nýlendurnar frá Breska heimsveldinu fyrir næstum 250 árum síðan.

Ef ekki einhverskonar Donald Trump, þá lítur út fyrir að við þurfum mann á borð við George Washington í Noregi og það fljótt!

*Øystein Steiro eldri, hefur verið öryggismálaráðgjafi Evrópuáætlunarinnar, Norsku stofnunarinnar um stefnumótun og ýmissa stjórnmálaflokka. Hann hefur tíu ára alþjóðlega reynslu úr utanríkisþjónustunni og gegnt forstjórastöðum í ýmsum alþjóðlegum fyrirtækjum.

Hann hefur í opinberum störfum sínum verið staðsettur í Bretlandi og Íran og meðal annars stýrt samskiptum og miðlað málum í stríðinu á milli Írak og Íran, í borgarastyrjöldinni í Bagdad og Teheran, og þegar írönsk stjórnvöld tóku vestræn skip á Persaflóa í lok níunda áratugarins.

Hann tók þátt sem norskur fulltrúi í sérfræðingahópi við gerð EES-samningsins, með ábyrgð á hagtölum, opinberum innkaupum, orkufyrirtækjum og samkeppnisrétti, og var fulltrúi Noregs í sérfræðinganefnd EFTA.

Hann var forstjóri Coca-Cola Nordic and Northern Eurasia og opnaði fyrstu Coca-Cola verksmiðjuna í fyrrum Sovétríkjunum eftir fall járntjaldsins.

Hann hefur síðan gengt mörgum lykilstöðum í norskum matvælaiðnaði.