Undirbúningur hafinn að afmæli skákeinvígis aldarinnar

Smbat Lputian, skólastjóri skákskóla Armeníu, Arkady Dvorkovich, forseti Alþjóðlega skáksambandsins, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Gunnar Björnsson forseti Skáksambands Íslands.

Forseti Alþjóðlega skáksambandsins, Arkady Dvorkovich og Smbat Lputian, formaður menntanefndar Alþjóðlega skáksambandsins funduðu með Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra á dögunum en þeir voru hér staddir í tilefni af setningu Reykjavíkurskákmótsins. Ræddu þau meðal annars um mögulega viðburði í tengslum við 50 ára afmæli heimsmeistaraeinvígis Boris Spassky og Bobby Fischer árið 2022 og um mikilvægi skákkennslu í grunnskólum. 

Lputian er jafnframt skólastjóri skákskóla Armeníu en Armenar hafa náð einkar góðum árangri í skák en kennsla í henni er liður í námsskrá 8-10 ára barna þar í landi. Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa verið gerðar á því með hvaða hætti skákþjálfun styrki nemendur og skólastarf bæði hvað varðar námsárangur en einnig jákvæð félagsleg áhrif hennar. Niðurstöður þeirra benda meðal annars til þess að skákiðkun þjálfi einbeitingu, forsjálni og óhlutbundna hugsun. Við skákborðið koma saman nemendur á ólíkum aldri og uppruna sem og nemendur með gjörólíka félagslega færni og þannig geti skákin brúað bil milli einstaklinga sem að öðrum kosti mundu síður nálgast hverjir aðra innan veggja skólans, að því er segir í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu.

„Skákkennsla og skákiðkun í skólum er jákvæð og sóknarfæri í að efla hana. Það er almennur velvilji gagnvart skákinni innan skólasamfélagsins og við Íslendingar höfum átt velgengni að fagna á vettvangi hennar. Ég fagna því ábendingum og framtaki skákáhugafólks sem vill veg hennar sem mestan. Skákin er skemmtileg, hún er leikur sem þjálfar hæfni sem við viljum sannarlega að leggja rækt við í menntakerfinu svo sem seiglu, greiningarhæfni og úrræðagæði,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.