Unnt að byggja íbúahverfi fyrir 3-4 þúsund íbúa í Halla- og Hamrahlíðarlöndum

Á fundi borgarstjórnar í gær flutti Kjartan Magnússon tillögu um aukna uppbyggingu í Úlfarsárdal. Í henni felst að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að hafist verði handa við skipulagningu íbúðasvæðis við Halla og í Hamrahlíðalöndum í Úlfarsárdal, þ.e. á svokölluðum M22 reit. Byggt verði á samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið frá árinu 2007 en það uppfært og betrumbætt eftir því sem þörf krefur. Stefnt skuli að því að úthlutun lóða í hverfinu hefjist árið 2026. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að endurskoða gildandi deiliskipulag svæðisins og annast aðra skipulagsvinnu vegna málsins.

Kjartan segir í samtali við Viljann að tillögunni hafi verið vel tekið af hálfu borgarstjóra og henni vísað til átakshóps um húsnæðisuppbyggingu í borginni að tillögu hans. „Afgreiðslan felur í sér ákveðin tímamót varðandi húsnæðismarkaðinn og uppbyggingu í borginni,“ segir Kjartan.

Meðal þess sem fram kom í ræðu Kjartans var:

  • Mikil spurn er eftir íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Slíkur skortur kallar á að skoðaðar séu allar leiðir til að auka framboð lóða undir íbúðarhúsnæði. Svo vel vill til að Reykjavíkurborg á mikið land, sem auðvelt er að skipuleggja og breyta í lóðir með skömmum fyrirvara. Borgin getur því brugðist myndarlega við því erfiða ástandi, sem ríkir á húsnæðismarkaði, og á að gera það. Stóraukið framboð lóða fyrir íbúðarhúsnæði yrði mikilvægt framlag til lausnar á húsnæðisvandanum. 
  • Úlfarsárdalur er ákjósanlegur að þessu leyti. Þar er mikið af ónumdu og vel staðsettu landi, sem hentar vel til uppbyggingar. Landið er í um 55-80 metra hæð yfir sjávarmáli, sem er svipað og í Neðra-Breiðholti. Þar eru miklir útsýnismöguleikar og svæðið er auk þess umlukið góðum útivistarsvæðum. Í hverfinu eru margir innviðir þegar til staðar, sem nýtast myndu hinni nýju byggð: íþróttahús, sundlaug o.s.frv.
  • Deiliskipulag var samþykkt fyrir umrætt svæði árið 2007 en samkvæmt núverandi aðalskipulagi er þar gert ráð fyrir blandaðri byggð í framtíðinni. Hér er lagt til að nýtingu svæðisins verði hraðað með áherslu á íbúabyggð. Ljóst er að hægt væri að byggja að verulegu leyti á deiliskipulaginu frá 2007 en það þyrfti þó að sjálfsögðu að uppfæra og gera síðan viðhlítandi aðalskipulagsbreytingu.
  • Um 8.500 manns búa nú í Grafarholti og Úlfarsárdal. Með góðu móti er unnt að byggja íbúahverfi fyrir 3-4 þúsund íbúa í Halla- og Hamrahlíðarlöndum (M22 reit).
  • Uppbygging í Halla- og Hamrahlíðarlöndum er auðveldasta leiðin til að auka lóðaframboð í Reykjavík. Æskilegt væri að nota tækifærið til að lækka verð á lóðum og lækka þannig húsnæðiskostnað, sem myndi koma fjölmörgum fjölskyldum til góða. 
  • Íbúar í Grafarholti og Úlfarsárdal benda á að vegna tiltölulegra fárra íbúa í þessum hverfum, rísi þau ekki undir margvíslegri þjónustu, sem er að finna í öðrum hverfum borgarinnar. Þá hefur Knattspyrnufélagið Fram, íþróttafélag hverfisins, oft bent á að mun fleiri íbúa vanti í hverfið ef það eigi að geta staðið undir blómlegu íþróttastarfi.
  • Ljóst er að frekari uppbygging í Úlfarsárdal og fjölgun íbúa myndi efla verslun og þjónustu í Grafarholti og Úlfarsárdal, sem og íþrótta- og menningarstarf í þessum hverfum.