Uppgangur ferðaþjónustu fremur til starfsfólks en eigenda og lánadrottna

Orðræðan síðustu vikur bendir til þess að hótel hafi hagnast gríðarlega á síðustu árum á meðan launafólk hefur borið skarðan hlut frá borði. Slíkur málflutningur er í engum takti við staðreyndir málsins, að því er segir í gögnum sem Viðskiptaráð hefur sent frá sér.

Viðskiptaráð bendir á eftirfarandi:

  • Hlutur launafólks í verðmætasköpun hótela sem yfirstandandi verkföll ná yfir var 76% árið 2017 og var tveimur prósentustigum hærri en árið 2014.
  • Á sama tíma dróst hlutdeild rekstrarhagnaðar, eða fjármagns, saman sem því nemur. Því hefur uppgangur ferðaþjónustu að meirihluta runnið til starfsfólks heldur en eigenda og lánadrottna.
  • Launakostnaður á launþega hækkaði að raunvirði um 28% árin 2014-2017 hjá þeim hótelum þar sem verkföll standa nú yfir. Sú hækkun endurspeglar að langmestu leyti aukningu kaupmáttar launa.
  • Frá 2008 hefur kaupmáttur launa í gisti- og veitingarekstri hækkað um 18% eða meira en í nokkrum öðrum atvinnugreinahóp. Frá 2014 nemur hækkunin 23% og er einungis meiri meðal opinberra starfsmanna
  • Um 23% hagnaðar hótelanna sem verkföllin ná til hefur verið greiddur út sem arður frá 2010 til 2017, afganginum hefur verið endurfjárfest í uppbyggingu starfsemi þeirra.

Viðskiptaráð segir að frá árinu 2017 hafi laun haldið áfram að hækka á meðan nýting herbergja hefur minnkað.

Þetta og margt annað, eins og fækkun ferðamanna síðustu mánuði, bendi til þess að afkoma hótela og ýmissa annarra aðila í ferðaþjónustu hafi farið versnandi nokkuð hratt. Einföld samlagning og frádráttur sýnir að í slíku umhverfi er svigrúm til launahækkana lítið, segja hagfræðingar Viðskiptaráðs.