Upplýsingafundirnir aftur með reglulegum hætti

Það er til marks um að kórónuveiran sé ekki horfin úr íslensku samfélagi, að hinir umtöluðu upplýsingafundir Almannavarna eru aftur orðnir fastur liður. Annar fundurinn í þessari viku var haldinn í beinni útsendingu kl. 14 í dag og í næstu viku er gert ráð fyrir þremur fundum, að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns hjá Ríkislögreglustjóra.

Tilefnið er auðvitað opnun landsins sl. mánudag og ýmsar tilslakanir á samkomubanni undanfarið. Virkum smitum er aftur farið að fjölga og enn á eftir að koma í ljós hvort einkennalausir farþegar hafi borið veiruna með sér til landsins undanfarna daga.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum í dag, að eitt neitt tilfelli hefði greinst við skimun á landamærunum í gær. Sagði hann framkvæmd sýnatökunnar fyrstu dagana almennt hafa gengið vel, en einhverjir hnökrar eðlilega komið upp sem unnið væri að því að lagfæra.

Eftir mótefnamælingar liggur fyrir að tvö smit undanfarinna daga eru virk, auk þeirra sem tengjast rúmenskum glæpaflokki. Þar er lögreglukona með staðfest smit, eins og Viljinn greindi frá í morgun.

Viljinn spurði Þórólf á fundinum hvort fjölda staðfestra smita væri undir eða yfir ágiskun hans um það sem gæti gerst við opnun landsins. Hann sagði þetta í samræmi við væntingar sínar, auðvitað hefði verið allrabest að engin ný smit kæmu upp, en slíkt væri líklega óraunhæft.

Benti hann á að tvö virk smit af þrjú þúsund komufarþegum geti varla talist mjög hátt hlutfall. Að hans mati sé því skynsamlegt að beita skimun til að finna þá sem séu með greinanlegt smit, svo unnt sé að bregðast hratt við og fara í einangrun, sóttkví og smitrakningu samkvæmt aðgerðum sem hafi þegar sannað gildi sitt.